Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Leikur sameinar öll börn
Miðvikudagur 25. apríl 2018 kl. 12:49

Leikur sameinar öll börn

Listahátíð barna í Reykjanesbæ verður sett með pompi og prakt í þrettánda sinn fimmtudaginn 26. apríl. Hátíðin er samvinnuverkefni  Listasafns Reykjanesbæjar, allra 10 leikskóla bæjarins, allra 6 grunnskólanna, Tónlistarskólans, dansskólanna Bryn Ballett Akademíunnar og Danskompanís og listnámsbrautar Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Guðlaug María Lewis, starfsmaður menningarsviðs Reykjanesbæjar spjallaði við blaðamenn Víkurfrétta og sagði þeim frá undirbúningi sýningarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Segðu okkur aðeins frá sýningunni hér í Duus húsum.
Við erum að fara af stað með listahátíð barna í þrettánda sinn í ár og leikskólarnir taka þátt, tíu talsins. Á hverju hausti veljum við okkur viðfangsefni og í ár vorum við með þemað börn um víða veröld sem er kannski ekki áþreifanlegt. Það var smá hausverkur hvernig við ættum að takast á það viðfangsefni, þó svo að við höfum valið það en okkur fannst það spennandi í ljósi aðstæðna í heiminum en þá vildum við setja fókusinn á það sem sameinar börn um víða veröld og niðurstaðan var sú að öll börn vilja hafa húsaskjól, heimili og öll börn hafa þörf fyrir fjölskyldu eða umönnunaraðila og síðan er það leikurinn sem sameinar öll börn, hvar sem þau eru stödd í heiminum. Niðurstaðan var því sú að hér yrðu gerð hús, myndum búa til alheimsþorp með heimilum, börnum um víða veröld sem leiðast meðfram veggjunum og síðan voru gerð flögg sem verða yfir þorpinu.

Hvað er undirbúningstímabilið búið að vera langt fyrir þessa sýningu?
Í rauninni frá því í haust, þegar Ljósanótt er búin þá förum við að vinna í þessu verkefni, leikskólarnir vinna mikla rannsóknarvinnu fyrir þetta verkefni á veturnar og síðan fæðist þetta á vormánuðum. Þannig að undirbúningurinn er búinn að vera meira og minna síðan í haust hjá skólunum.

Nú eru húsin, börnin og flöggin unnin úr endurunnum efnum, er einhver ástæða fyrir því?
Ég veit það að leikskólinn hefur þetta mikið inni í sinni vinnu að nýta allt sem til er en verkin þeirra eru mikið úr endurunnu efni, svo erum við líka með grunnskólana og þar er efniviðurinn í bland en grunnskólarnir eru líka að fást við þetta viðfangsefni.

Frá uppsetningu sýningarinnar.

Hvenær hefst sýningin og hvenær er setning hátíðarinnar?
Setningin er 26. apríl og hún er í þremur hlutum, leikskóli kl 10:30, grunnskólinn eftir hádegið, svo er listnámsbraut FS með okkur og hún opnar kl. 16.

Hvað er sýningin opin lengi?
Sýningin er opin til 13. maí og þetta er vinsælasta sýningin í húsinu en í fyrra sáu 4000 gestir sem sáu sýninguna sem er alveg frábært. Aðgangur er ókeypis en þann 28. apríl er fjölskyldurdagur hjá okkur, sem er smá uppskeruhátíð, þá erum við með listasmiðjur og smá húllumhæ. Þá ætlar skessan líka að baka lummur og við gerum þetta svolítið skemmtilegt. Það verður fleira í gangi, tívolítæki ef það viðrar vel hjá okkur, ratleikur í boði KFUM og K, skátarnir ætla að grilla pylsur og það verður Sirkus Íslands, Dýrin í Hálsaskógi ætla að taka á móti krökkunum þannig að það er fjölbreytt og skemmtileg dagskrá í boði.

Svo eru líka tónleikar, ekki satt?
Jú, á sunnudaginn eru tónleikar í Stapanum, við erum tónlistarbærinn og við fórum að hugsa svolítið til baka og fórum að spá í því hvort það væri einhver tónlist sem tengist börnum í Reykjanesbæ. Þá þarf nú ekki að fara mjög langt aftur en plöturnar frá Ruth Reginalds var mjög vinsæl til dæmis þegar ég var ung og Maggi Kjartans stóð var aðalmaðurinn þar, þannig að við þurftum ekki að leita langt. Við fórum að spá í þessa hugmynd, hvort við gætum tekið þennan menningararf okkar sem er barnatónlist og gert eitthvað úr henni. Niðurstaðan var sú að tónlistarskóli Reykjanesbæjar heldur tónleika í Stapanum kl 14 og Maggi Kjartans verður með í þeim tónleikum og þar ætlum við að dusta rykið af okkar gömlu barnalögum og gera skemmtilega popptónleika þar sem við vonumst eftir fjölmenni.

Um að gera að koma og bregða sér á leik með börnunum.

Hildur Harðardóttir, leikskólanum Gimli sagði okkur frá undirbúningnum á leikskólanum.

Segðu okkur aðeins frá vinnuferlinu á leikskólunum.
Það byrjaði þannig að við fórum að skoða börn um víða veröld og hvort við værum öll eins, hvort einhver væri öðruvísi en við og skoðuðum fullt af löndum. Síðan var lýðræðisleg kosning þar sem að fullt af löndum voru settar í hatt og við drógum upp fjögur lönd. Ghana, Grikkland, Ísrael og Japan, síðan var börnunum skipt upp í fjóra hópa og hver hópur skoðaði eitt land. Við teiknuðum og máluðum börnin í svarthvítu og þau eru utan á húsinu okkar sem er múrsteinshús því við vorum búin að finna það út að í öllum heiminum eru múrsteinshús eftir að við vorum búin að kynna okkur hvernig börn byggju annarsstaðar. Við fundum það líka út að skókassar eru líkir múrsteinum en við söfnuðum kössum frá heimilum og svo hjálpaði Skóbúð Reykjanesbæjar okkur líka að safna kössum.

Hulda setur upp fána sem börnun bjuggu til fyrir sýninguna.

Hvernig fannst börnunum þetta ferli?
Þeim fannst þetta æðislega gaman. Við skoðuðum fatatísku landanna og þjóðbúninga og fleira. Þau bíða eftir að fá húsið heim til að leika í því en þau geta ekki beðið eftir að fá að koma á sýninguna og sjá afaksturinn.