Leikþáttur, leiðsögn og tónleikar í Duus Safnhúsum

Þeir sem enn eiga eftir að kynna sér sýninguna Reykjanesbær – verndarsvæði í byggð? í Duus Safnahúsum verða hreinlega að nýta Safnahelgi á Suðurnesjum til þess. Á sýningunni er skoðað með hvaða hætti byggð þróaðist á svæðinu og það sem mikilvægara er, spurningum varpað til gesta um það hvernig þeir sjái fyrir sér framtíðarásýnd ýmissa svæða í bænum og hvort ástæða sé til að vernda einhver þeirra. 
 
Á sýningunni eru bæjarbúar hvattir til að láta í ljós skoðun á því hvernig þeir vilja t.d. sjá svæðið í kringum Duus Safnahús þróast og einnig til að koma með ábendingar um önnur svæði, svo sem í Njarðvík, Höfnum og á Ásbrú, sem þeir telja ástæðu til að vernda eða huga að með einhverjum hætti.
 
Á sunnudag kl. 14 verður Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður byggðasafns Reykjanesbæjar með leiðsögn um sýninguna og á sama stað og tíma munu félagar úr Leikfélagi Keflavíkur gera tilraun til að fara með okkur í huganum aftur til fullveldisársins 1918 en í Duus Safnahúsum er þess einmitt minnst um þessar stundir á ýmsan máta að 100 ár eru liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki.
 
Þennan sama dag kl. 15 er boðið upp á leiðsögn og listviðburð í listasal en lokaviðburður dagsins eru síðan tónleikar Kvennakórs Suðurnesja kl. 16 í Bíósal og eru þeir öllum opnir. Tónleikarnir eru liður í 50 ára afmælishátíð kórsins en þennan dag lýkur einnig sýningu Kvennakórsins sem spannar sögu hans og staðið hefur í Stofunni sl. mánuð.