Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Leikskólinn Gimli 50 ára
Laugardagur 9. október 2021 kl. 15:38

Leikskólinn Gimli 50 ára

Leikskólinn Gimli var stofnaður af Kvenfélagi Njarðvíkur haustið 1971 undir forystu Guðlaugar Karvelsdóttur sem jafnframt var formaður félagsins. Guðríður Helgadóttir, fyrrverandi leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar, var fyrsta leikskólastýra skólans og er Gimli næstelsti leikskólinn í Reykjanesbæ.

Bæjarfélagið tók við rekstrinum af Kvenfélagi Njarðvíkur en um tíma var leikskólinn í einkarekstri. Síðan tók bæjarfélagið aftur við rekstrinum, byggt var við leikskólann sumarið 1996 og viðbyggingin formlega tekin í notkun í september sama ár. Laus kennslustofa var sett við leikskólann haustið 2006 og er skólinn nú fjögurra kjarna/deilda leikskóli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þann 30. desember árið 2004 gerði undirrituð þjónustusamning við Reykjanesbæ og stofnaði fyrirtækið Karen ehf. og er sá samningur enn í gildi. Frá árinu 1999 hefur leikskólinn starfað eftir hugmyndafræði Hjallastefnunnar og er Karen ehf. með fagsamning við Hjallastefnuna ehf. sem veitir Gimli aðgang að allri þeirri þjónustu sem Hjallastefnan hefur upp á að bjóða.

Hugmyndafræði Hjallastefnunnar er skýr og byggir hún á einföldu og jákvæðu starfsumhverfi sem einkennist af vináttu, kærleika, virðingu og gleði. Öll börn eiga skilið það besta og það er í höndum okkar fullorðnu að skapa börnum uppbyggilegt og nærandi umhverfi. 

Menntandi vinnuumhverfi fyrir bæði starfsfólk og börn, virk  foreldraþátttaka og vingjarnlegt andrúmsloft eru þeir þættir í starfinu okkar sem við erum hvað stoltust af og skilar þeim árangri sem við sækjumst eftir - ánægðum börnum - ánægðum foreldrum - ánægðu starfsfólki.

Þess má geta að samvinna á milli leikskólans og foreldra barna á Gimli hefur í gegnum tíðina verið einstaklega góð og gefandi. 

Öll verkefni á Gimli eru unnin með þessi góðu gildi Hjallastefnunnar að leiðarljósi þar sem metnaðarfullir kennarar með ástríðu fyrir starfinu vinna faglega og af heilindum. Má þar meðal annars nefna verkefnin:

Þrónunarverkefnið Jóga í vettvangsferðum bar hæst skólaárið 2020 til 2021 og viljum við sérstaklega vekja athygli á því hér í tilefni af stórafmæli leikskólans.

Afrakstur þróunarverkefnisins er gjöf til samfélagsins á þessum merku tímamótum og  verður verkefnið formlega tekið í notkun í októbermánuði 2021.

Í nútímasamfélagi þar sem hraðinn er oft á tíðum mikill og ýmis áreiti dynja á okkur þá er dýrmætt að kunna aðferðir til að slaka á og vera í núvitund.

Frá árinu 2007 hefur jóga verið ein af námsleiðum skólans og hafa allir nemendur á Gimli farið í skipulagðar jógastundir einu sinni í viku á sínum kjarna/deild með Sigurbjörgu E. Gunnarsdóttur (Sibbu), leikskólakennara og jógaleiðbeinanda barna á Gimli. Þar er iðkuð núvitund, slökun, öndunaræfingar og jógastöður í gegnum sögur og ævintýri. Þannig fléttast saman hreyfing, núvitund, líkamsvitund og fjölbreytt orðaforðakennsla. Ræktuð er vitund um andlegt og líkamlegt heilbrigði ásamt því að efla einstaklings- og félagsfærni nemenda. Umræður um tilfinningar, sjálfstraust, samkennd, samskipti, umburðarlyndi, hjálpsemi og trú á eigin getu. Dyggðir eins og  kærleikur, virðing, gleði, vinátta, traust og þakklæti eru hafðar að leiðarljósi. Í jógastundum erum við saman í rólegri stund þar sem við eflum einbeitingu, athygli, hlustun og þolinmæði. Með því að gera stöðurnar og hinar ýmsu teygjuæfingar eflum við styrk og liðleika líkamans. Umræður um tilfinningar og líðan kennir samkennd, gagnvart sjálfum sér og öðrum. Allt gert út frá aldri og þroska nemenda.

Á vormánuðum árið 2020 fengum við styrk frá Nýsköpunar – og þróunarsjóði Reykjanesbæjar fyrir verkefnið Jóga í vettvangsferðum. Vettvangsferðir og útikennsla hafa alltaf verið stór þáttur í starfi okkar á Gimli.

Hugmyndin að verkefninu kviknaði út frá jógastundunum og fólst í því að flétta núvitund, öndunaræfingar og jóga inn í vettvangsferðirnar. Verkefnið fór af stað með nemendum og kennurum skólans þá um haustið undir verkefnastjórn Sigurbjargar.

Tilgangurinn með jóga í vettvangsferðum er að yfirfæra út í náttúruna hluta af því sem nemendur læra í jógastundum inni. Þau læri að tengja jóga og núvitund við umhverfismennt. Við eflum skynfærin okkar með því að hlusta, skoða og snerta. Skoðum og lærum um umhverfið, veðurfar, gróður, fuglana, dýrin, göngum vel um og berum virðingu fyrir náttúrunni. Árstíðir, veðurfar, umhverfi og hugmyndir nemenda gefa alltaf nýja upplifun og skynjun. Í leiðinni eru kennarar meðvitaðir um að ræða það sem fyrir augum ber og leggja inn fjölbreyttan orðaforða hjá nemendum. Með vakandi athygli kennum við þeim að njóta og upplifa náttúruna eftir mismunandi árstíðum og veðurfari. Í vettvangsferðum er farið á hin ýmsu svæði í nágrenni leikskólans en okkar aðal útikennslusvæði til fjölda ára eru klettarnir við Grænás og Njarðvíkurskógur.   

Í upphafi setti Sigurbjörg saman hefti með núvitundaræfingum, öndunaræfingum og jógastöðum sem kennarar geta stuðst við og unnið með nemendum í vettvangsferðum. Nokkrar nýjar hugmyndir hafa kviknað hjá kennurum og nemendum úti í náttúrunni og hefur þeim verið bætt við. Þetta eru meðal annars jógastöður sem við höfum búið til út frá því sem við sjáum og upplifum í umhverfinu okkar. Verkefnin er hægt að vinna með öllum aldri, einföldum eftir því sem börnin eru yngri. Hugmyndirnar er hægt að nýta hvar og hvenær sem er.

Eitt af markmiðum verkefnisins var að miðla til samfélagsins og finna leið til að vekja áhuga bæjarbúa á núvitund, öndunaræfingum og jógastöðum í náttúrunni. Í samvinnu við Reykjanesbæ verða sett skilti á stóra steina á gönguleiðinni í Njarðvíkurskógi og á gönguleiðinni við sjávarsíðuna fyrir aftan Njarðvíkuskóla. Steinarnir verða fjórir á hvorum stað. Á skiltin eru áletraðar einfaldar núvitundaræfingar með hvatningu um að vera í núvitund, staldra við, hugsa inn á við og njóta. Með QR-kóða sem er á skiltinum komast bæjarbúar inn í smáforrit/app sem er rafbók með skemmtilegum núvitundar-, öndunar-, og jógastöðum fyrir allan aldur.

Við erum þakklát fyrir þann styrk sem við fengum úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði Reykjanesbæjar til að gera þetta verkefni að veruleika. Því er okkur sönn ánægja á fimmtíu ára afmæli leikskólans að geta gefið þessa gjöf út í samfélagið okkar. Gjöf sem eflir hreyfingu, núvitund, kærleika, vináttu og samkennd.

Afmælinu var fagnað föstudaginn 1. október á lágstemdum nótum, í ljósi aðstæðna í samfélaginu, þar sem börn og starfsfólk gerðu sér glaðan dag á þessum merku tímamótum. Síðar í októberbermánuði eins og fram hefur komið verður svo þróunarverkefninu Jóga í vettvangferðum hrint úr vör.    

Að lokum viljum við starfsfólk á Gimli nota tækifærið til að þakka öllu því dygga samferðafólki sem hefur í gegnum árin glætt og glatt okkar ágæta skólastarf á Gimli. Það væri of langt mál að telja alla upp hér en þeir vita það best sem hafa lagt hönd á plóg.

Bestu kveðjur,
S. Karen Valdimarsdóttir, rekstrar- og leikskólastýra á Gimli.

Leikskólinn Gimli 50 ára - umfjöllun