Leikskólabörn kynnast sveitalífinu
Leikskólabörn af tveimur leikskólum í Reykjanesbæ fóru í sveitaferð í dag. Börnin af leikskólunum Heiðarseli og Tjarnarseli heimsóttu Grjóteyri við Meðalfellsvatn í Kjós og skoðuðu þar húsdýrin á bænum. Margt spennandi var að sjá en að Grjóteyri var hinum ýmsu húsdýrum komið fyrir inn af fjósinu. Þar mátti sjá hesta, kálfa, lömb, geit og kiðling. Einnig kettlinga, hvolpa og kjúklinga. Heimilishundarnir pössuðu svo upp á börnin, en þar voru á ferð tveir greinilega mjög vanir smalahundar.Börnunum þótti spennandi að sjá dýrin og koma í fjósið þar sem fjöldinn allur af beljum voru á bás með blautt nef! Eftir að hafa dvalið dágóða stund í fjósinu og með húsdýrunum var farið á útileiksvæði og nestið borðað. Síðan var haldið heim á leið með fjósalykt í farteskinu og gleði í hjarta.
Meðfylgjandi mynd var tekin í heimsókn Heiðarsels að Grjóteyri í morgun. Fleiri myndir í Víkurfréttum á fimmtudaginn.
VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Meðfylgjandi mynd var tekin í heimsókn Heiðarsels að Grjóteyri í morgun. Fleiri myndir í Víkurfréttum á fimmtudaginn.
VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson