Leikskólabörn heimsækja lögregluna
Á mánudaginn komu leikskólabörn af leikskólanum Holti í Innri-Njarðvík í heimsókn á lögreglustöðina í Keflavík. Þau voru í fylgd leikskólakennara og fengu að skoða lögreglustöðina, lögreglubifreiðarnar og ýmislegt annað á lögreglustöðinni. Vöktu lögreglubifreiðarnar og búnaður þeirra sérstaka athygli og fannst börnunum gaman að fá að prófa að gefa hljóð- og ljósmerki.
Rætt var við börnin um umferðaröryggi og var hjálmanotkun sérstaklega áréttuð. Þegar börnunum var hrósað fyrir að vera í endurskinsvestum kom í ljós að enginn átti slík heima fyrir heldur hefði leikskólinn lagt þau til vegna ferðalagsins frá Innri-Njarðvík. Í lok heimsóknarinnar var börnunum boðið upp á hollustufæði að hætti lögreglumanna, ávaxtasafa, epli, banana og gulrætur!