Leiklistin mun alltaf fylgja mér
Brynja Ýr Júlíusdóttir, nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, er allt í öllu í nýju leikriti Vox Arena
Vox Arena, listaráð Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja, frumsýndi á dögunum leikritið Hairspray eftir langt og strangt æfingaferli. Þar fór Brynja Ýr Júlíusdóttir með eitt af aðalhlutverkum leikritsins, en hún kom að ýmsu öðru í ferlinu, vægast sagt, en þar á meðal er hún formaður Vox Arena.
„Ég er búin að vera mjög dugleg í þessu leikriti, þó ég segi sjálf frá. Ég þýddi handritið og er því höfundur leikgerðar ásamt þýðingu einhverra af lagatextunum. Ég sá algjörlega um að vinna allt hljóð ásamt pabba mínum, Júlíusi Frey, en ég hefði ekki geta gert það án hans. Ég tók svo við sem formaður Vox Arena, en stuttu fyrir það tók ég að mér að vera aðstoðarleikstjóri og fékk svo líka aðalhlutverkið í sýningunni. Þetta ferli hefur því verið mjög erfitt fyrir mig. Ég skipulagði allar æfingarnar, ásamt Elvu leikstjóra, og sá um söngæfingar fyrir krakkana. Þetta hefur svo sannarlega verið lærdómsríkt. Ég hafði ekki hugmynd um að það tæki svona mikið á að setja upp heila leiksýningu en það gerir stoltið yfir þessu öllu svo mikið meira.“
Margir telja boðskap Hairspray fallegan og mikilvægan en Vox Arena ákvað að breyta sögunni örlítið. „Í stað þess að fjalla um kynþáttafordóma breyttum við því í fordóma á milli ríkra og fátækra. Líf fátækra getur verið mjög erfitt þar sem þeir hafa ekki sömu valkosti og þeir sem hafa meira á milli handanna. Aðalpersónan í Hairspray, Tracy, finnur líka fyrir fordómum, en hún er í þykkari kantinum og er að reyna að koma sér á framfæri með því að komast inn í Corny Collins þáttinn. Það reynist henni mjög erfitt vegna þyngdarinnar og fordómarnir í Hairspray eru miklir. En boðskapurinn er mjög fallegur og ég er glöð að sjá hvað okkur tókst vel að koma honum til skila.“
Brynja segist hafa mikinn áhuga á því að starfa við leiklist í framtíðinni, sérstaklega eftir þetta ferli. „Eins og staðan er núna er ég að íhuga að fara kannski út í leiklistarskóla, en það kemur allt í ljós með tímanum. Maður veit aldrei hvert lífið tekur mann næst og ég er eiginlega opin fyrir flestu. Ég veit þó að sama hvort ég verði atvinnuleikari eða ekki, þá muni leiklistin alltaf fylgja mér.“