Leiklistarskóli fyrir 20 ára og eldri í Púlsinum
Nú er komið að fullorðnum, að þeim hópi fólks sem vill læra aftur listina að leika sér. Fullorðnir hafa mikið beðið um leiklistarnámskeið fyrir eldri kynslóðina. Nú verður þeirri beiðni svarað, því stofnaður hefur verið leiklistarskóli fyrir 20 ára og eldri að nafni „Kremið“.
Þar mun landsþekkt og skemmtilegt leikhúsfólk kenna þátttakendum. Fyrstan má telja Árna Pétur Guðjónsson, leikara sem nú leikur í kvikmyndinni „Strákarnir okkar“ og einnig leikur hann í Rómeó og Júlíu, en Árni Pétur er einmitt á leið til London að leika áfram með hópnum þar. Árni Pétur hjálpar þátttakendum að opna sig, koma út úr skelinni en hann er þekktur fyrir léttleika í kennslu. Svo kemur Sigurður Skúlason, einn af stóru leikurum Þjóðleikhússins, hann leikur einnig í sömu nýju kvikmynd og Árni Pétur en Sigurður mun kenna framsögn og að tala frammi fyrir hóp. Bryndís Ásmundsdóttir leikkona, ein af þáttastjórnendum Djúpu laugarinnar, hress leikkona, sem margir muna eftir, hún mun vinna með spuna, persónusköpun á sviði og listina að leika. Aino Freyja yndælis leikkona kemur svo. Hún er einnig dansari og kennir þátttakendum að virkja líkamskraftinn betur. Hún er mjög þekkt fyrir dansútfærslur á sviði. Ágústa Skúladóttir, leikstjóri endar námskeiðið með því að opna fyrir sköpunarkraftinn sem þátttakendur hafa byggt upp á námskeiðinu og hjálpar þeim að koma hugmyndum sínum á leiksvið. Ágústa er einn vinsælasti leikstjórinn í dag, hún á m.a. nokkrar verðlaunasýningar að baki, td. Sellófón, Klaufar og kóngsdætur, Dauðinn og jarðarber ofl. ofl. Það er alltaf gaman í kringum Ágústu.
KREMIÐ er það besta á hverri köku. Eins verður með þennan leiklistarskóla! Kremið er fyrir alla; hinn almenna borgara, áhugaleikarann,kennara,leiðbeinendur, alla sem vilja efla sjálfstraust og jákvæð samskipti, gera eitthvað skemmtilegt eina kvöldstund og læra um leið að þekkja hæfileika sína betur.
Börn og unglingar skipa einnig stóran sess
Púlsinn ævintýrahús blæs í marga lúðra í haust og auglýsir námskeið sem eru glæsilegri en nokkru sinni fyrr. Kremið er bara eitt af þeim fjölmörgu námskeiðum sem í boði eru. Börn og unglingar hafa frá byrjun skipað stóran sess í ævintýrahúsinu og úrval námskeiða handa þeim fer fjölgandi. Vinsælu leiklistarnámskeiðin verða á sínum stað en nú býður Púlsinn einnig upp á framhaldshóp í leiklist líkt og í söngsmiðjunni. Það hafa svo margir krakkar farið í gegnum byrjendanámskeiðin að ákveðið var að fara lengra núna með hina mest þjálfuðu. Leiklist gefur þátttakendum aukið sjálfstraust í gegnum leik, almennt finna þau líka fyrir meiri jákvæðni og gleði.
Söngurinn heillar marga og söngfuglar á námskeiðum Púlsins eru mjög fáir í hóp sem gerir söngkennaranum kleift að hjálpa hverjum og einum með hljóðfæri sitt, þe. líkamann og söngröddina. Röddin er þjálfuð ásamt réttri öndun og framkoma á sviði er stór þáttur af prógramminu en þar koma leiklistaræfingar inn í.
Yngstu börnin eru sex ára og þeirra námskeið byggja á söng, sögum og spuna. Þau syngja, spila á töfra hljóðfæri og leika leikrit. Sköpunin er allsráðandi.
Það er líf og fjör á öllum námskeiðum í húsinu, það er mottó Púlsins. Nú er bara að finna námskeið sem hentar þér og fjölskyldu þinni. Ekki hugsa of lengi um það því takmarkað pláss er á öll námskeið í Púlsinum, svo allir njóti sín!