Leikið og sungið Guði til dýrðar!
Börn og unglingar skipa stóran sess á Kristnihátíð okkar Suðurnesjamanna,sem fram fer í Reykjaneshöllinni sunnudaginn 2.apríl. Síðan í byrjun október hefur leikhópur starfað á vegum kirkjunnar. Í leikhópnum eru 24 krakkar af svæðinu á aldrinum 9 til 17 ára.Þau fóru fyrst á námskeið í leikrænni tjáningu hjá Mörtu Eiríksdóttur og síðan hefur hún leikstýrt hópnum.Leikverkið fjallar um ólánsaman ungling sem verður fyrir ljótri lífsreynslu.Í leikritinu er ferðast aftur til daga Jesú og unglingurinn fær að upplifa dálítið óvenjulegt.Leikverkið samdi Marta um jólin og heitir það Guði til dýrðar.Þar er leikið,sungið,dansað og spilað.Þetta er eina Kristnihátíðin á landinu þar sem frumflutningur leikverks á sér stað.Við hittum hressa krakka í leikhópnum á æfingu síðastliðna helgi.Okkur lék forvitni á að vita hvernig stemningin væri í hópnum eftir að hafa unnið í leiklist í allan vetur.Adda 14 ára: Ég er miklu jákvæðari og hressari núna en ég var áður en við byrjuðum á þessu verkefni.Bergþóra 11 ára: Ég hreyfi mig meira núna og er hressari.Hrafnhildur Ása 9 ára: Það er rosalega gaman að kynnast öllum þessum krökkum.Stefán 14 ára: Sjálfstraustið mitt hefur aukist.Ég þorði að syngja rosalega hátt í afmæli litla bróður míns um daginn.Ég var í aðgerð með hnéð á mér og mátti því ekki vera í íþróttum lengi en svo komst ég inn í þennan hóp.Nú er ég aftur kominn í íþróttirnar.Ég er viss um að þessi vinna hjálpaði mér til þess að læknast fyrr.Það er svo gaman hérna.Arnar 14 ára: Mér finnst svo gaman að kynnast þessum fallegu andlitum hérna.Védís 11 ára: Sjálfsöryggi mitt hefur aukist mikið.Fannar 15 ára: Gaman að kynnast öllum þessum krökkum. Ég get tjáð tilfinningar mínar betur því hlutverk mitt hefur reynt á það.Ég er ekki eins mikill skaphundur núna og ég var!Helgi 13 ára: Ég er heldur ekki eins tilfinningalega bældur lengur.Ég er opnari.Æðislegt framtak hjá kirkjunni að hafa svona leikrit.Þetta hjálpar mörgum til að líða betur.Davíð 17 ára: Gott að fá að leika Jesú vegna þess að ég hef oftast leikið einhvern trúð.Gaman að vera í alvarlegu hlutverki.Víkkar sjóndeildarhringinn.Gaman.Marta 38 ára leikstjóri: Hópurinn hefur stækkað á alla kanta andlegasíðan þau byrjuðu.Þau þora núna að vera væmin og segja fallega hluti.Það þarf hugrekki til þess nú til dags.Þau eru miklu opnari öll.Það gefur mér rosalega mikið að sjá þessa krakka blómstra svona.Leikhópurinn hvetur alla jarðarbúa og geimverur til þess að mæta áKristnihátíðina sunnudaginn 2.apríl. Krakkarnir ætla að leika af fingrum fram fyrir áhorfendur bæði þá sem sitja í salnum og svo auðvitað Guði til dýrðar! Þarna hlýtur að verða allt fullt af englum. Sveiflutónleikar í StapaHátíðin verður sneisafull af fagurri tónlist og hundrað manna kór mun fylla höllina af söng.Nemendur tónlistarskólanna munu einnig spila.Búist er við miklum fjölda fólks þennan dag. Um kvöldið heldur gleðin áfram og verða Sveiflutónleikar í Stapa og þar munu fleiri Suðurnesjamenn koma fram ásamt Gospelsystrum. Tónleikarnir verða svipaðir sveiflunni sem verið hefur í Keflavíkurkirkju um jólin.Sérstakir gestir kvöldsins verða séra Björn Jónsson og Ólafur Skúlason biskup.Tónleikarnir eru í umsjá Einars Arnar organista og Rúnars Júlíussonar hljómlistamanns.