Leikhús er geggjað
Jón Bjarni Ísaksson er 29 ára keflvíkingur sem hefur brennandi áhuga á leiklist og öllu sem henni viðkemur. Þau eru ófá verkefnin sem Jón Bjarni hefur tekið sér fyrir hendur innan veggja Leikfélags Keflavíkur en nú er hann að læra leikarann í Listaháskóla Íslands. Þá hefur hann skrifað leikrit, leikstýrt og búið til „sketsa,“ auk þess eyddi hann miklum tíma í brúðugerð um skeið.
Hvernig kom það til?
„Ég og pabbi horfðum mikið á Prúðuleikarana (The Muppet Show) þegar ég var krakki. Mér fannst þetta svo skemmtilegt og var alltaf að hugsa með mér hvernig þetta væri gert,“ segir Jón Bjarni og bætir við: „Ég man ekki hvað ég var gamall þegar ég byrjaði að leika mér að búa eitthvað til úr öllu sem ég fann, til dæmis sokkum. Þegar ég var í grunnskóla bjó ég til brúðu eftir einhverju myndbandi sem ég fann á YouTube og byrjaði síðan að „Googla“ mig áfram og þróa það, ég varð svo alltaf betri og betri.“ Þegar Jón Bjarni var í tíunda bekk ákvað hann að heyra í Braga Þór Hinrikssyni, sem gerði meðal annars Búbbana og Algjör Sveppi myndirnar. Þessi kynni áttu eftir að vera Jóni Bjarna til góðs því nokkrum árum seinna bauð Bragi honum að taka þátt í brúðugerð og sem brúðuleikari fyrir Stundina okkar. „Þegar hann og Gói voru með Stundina okkar þá hafði Bragi samband við mig og ég endaði á að vera með þeim í nokkrum þáttum sem voru teknir upp í kringum jólin 2013. Sumarið 2014 og 2015 var ég síðan að vinna með þeim heilar seríur,“ segir Jón Bjarni.
Hvernig býr maður til brúðu?
„Þetta er aðallega bara svampur, flís, lím og mikið af saumaskap, maður þarf að vera góður í að sauma. Hugmyndaflugið þarf líka að vera svo rosalega virkt. Þú þarft að hugsa þrjú skref fram í tímann áður en þú framkvæmir. Þetta er svolítið eins og að vinna með leir, þetta er mikil nákvæmnisvinna,“ segir Jón Bjarni.
Leikhústöfrar heilluðu
Auk þess að gera brúður hefur Jón Bjarni verið að leika, skrifa og leikstýra fyrir Leikfélag Keflavíkur. Hann segir áhugann á leiklist hafa kviknað þegar hann fór í leikhús með ömmu sinni aðeins fjögurra ára gamall.
„Þegar ég hugsa til baka þá var amma dugleg að fara með mig og frænda minn í leikhús og áhuginn kviknaði í raun þegar ég sá Latabæ í fyrsta skiptið. Þegar íþróttaálfurinn birtist skyndilega á sviðinu með einhverjum leikhústöfrum þá varð ég svo heillaður að ég man eftir að hafa hugsað með mér: „Leikhús er geggjað!“ Ég tengdi þetta samt aldrei við það að vilja verða leikari, mig langaði bara að vera með,“ segir hann. Jón Bjarni leikstýrði sinni fyrstu leiksýningu árið 2010, þá aðeins átján ára gamall. Leikritið bar nafnið Daginn fyrir jól og var skrifað af honum sjálfum og vini hans, Arnóri Sindra Sölvasyni. Sýningin var heldur stutt og var frítt inn fyrir áhorfendur. Vinirnir fengu tækifæri tveimur árum seinna til að gera leikrit í fullri lengd sem heitir Jólin koma eða hvað? „Það var stórt og mikið verkefni. Þá vorum við með fólk á öllum aldri í leikarahópnum, bæði eldri og töluvert yngri en við og sú sýning gekk alveg vonum framar. Við tveir gerðum svo sýninguna Eitt töfrateppi takk í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja,“ segir Jón Bjarni.
Grínbræðurnir í Tvíeggja
Brúðugerð, leikstjórn, handritaskrif og leikur virðist ekki hafa verið nóg fyrir Jón Bjarna því árið 2013 byrjuðu hann og Arnór að skrifa „sketsa“ og birta á netinu undir nafninu Tvíeggja. Aðspurður hvernig sú hugmynd varð til segir hann: „Ég hef alltaf verið hrifinn af sketsaforminu. Mig persónulega langaði að búa til efni og fara eftir formúlu sem að mér fannst fyndin. Ég tala þá við Arnór þar sem við erum svona „grínbræður“, mætti segja. Við gerum svo þessa sketsa saman, planið var að gera þá til þess að grínast og hafa gaman en svo einhvern veginn sprakk þetta út og varð mjög vinsælt.“ Jón Bjarni segir viðbrögð fólks við þáttunum hafa komið honum á óvart. „Ég lenti oft í því að ungt fólk kom upp að mér og sagði: „Hey, ert þú ekki í Tvíeggja?“ Mér fannst það mjög sérstakt þar sem við vorum ekkert að leitast eftir því, við vorum bara að búa til grín og setja á netið,“ segir hann og bætir við: „Við erum ennþá með hugmyndir og það getur vel verið að við gerum eitthvað skemmtilegt aftur en við erum báðir á kafi í öðrum verkefnum, hver veit hvenær tími gefst í það?“
Hér vísar Jón Bjarni til föðurhlutverksins en hann varð faðir í september á síðasta ári, aðeins mánuði eftir að hann hóf nám við Listaháskóla Íslands. Hann segir það hafa verið krefjandi að eignast sitt fyrsta barn á stórum tímamótum í lífi sínu. „Ég hefði ekki getað þetta án konunnar minnar, Hólmfríðar, það er ekkert grín að vera í skólanum allan liðlangan daginn með ungabarn. Hún er stoð mín og stytta og dugnaður hennar hefur gert mér kleift að geta stundað námið,“ segir Jón Bjarni.
Jón Bjarni segir eftirminnilegasta verkefni sem hann hefur tekið þátt í vera leiksýninguna Mystery boy. „Það var svo mikil fegurð og hópurinn var svo pottþéttur, við vorum öll saman í liði. Þetta var falleg saga og virkilega vel skrifuð. Þegar maður mætti niður í leikhús til að sýna var aldrei neitt stress, það var alltaf sama spennan að fá að miðla áfram þessari fallegu sögu,“ segir hann. Sýningin var valin áhugaleiksýning ársins 2017–2018 og steig leikhópurinn á svið í Þjóðleikhúsinu. „Að fá tækifæri til þess að sýna sýningu frá Leikfélagi Keflavíkur í Þjóðleikhúsinu, leikhúsi landsins, það er ólýsandi. Sérstaklega að fá að sýna á sviði sem manni dreymdi um að fá að sýna á þegar maður var krakki,“ segir Jón Bjarni.
Ef þú gætir sagt eitthvað við litla Jóni Bjarna með stóra drauma, hvað væri það?
„Ég myndi ekki segja við hann að hann kæmist inn í Listaháskólann, af því þá veit ég að hann myndi slaka á og ekki vinna hart að þessum draum. Ég fékk nefnilega að vera mikið í leikfélaginu og allt fólkið, allir leikstjórarnir og þeir sem voru þar, kenndu mér allt sem ég kann. Að hafa verið í leikfélaginu hérna heima er það besta sem ég hef gert. Þannig ég myndi segja, haltu áfram – þú þarft að vinna hart að þessu en mundu að týna ekki gleðinni.“