Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Leikhópurinn er mjög þéttur og yndislegur 
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 16. október 2021 kl. 07:44

Leikhópurinn er mjög þéttur og yndislegur 

Fyrsti kossinn er krefjandi verk með miklum söng og hljóðfæraleik. Bítlabærinn Keflavík og Rúnar Júlíussson í sviðsljósinu.

Þau Tara Sól Sveinbjörnsdóttir og Sigurður Smári Hansson fara með stór hlutverk í Fyrsta kossinum sem Leikfélag Keflavíkur frumsýnir í næstu viku. Víkurfréttir fengu þau til að svara nokkrum spurningum um verkið og hvernig það er að taka þátt í svona veigamikilli sýningu. 

Nú veit ég að þið hafið bæði leikið og sungið á sviði áður með leikfélaginu en hvernig var að vera valin í svona stór hlutverk þar sem reynir á leik, hljóðfæraleik, mikinn söng og að mér skilst tilfinningar og átök?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Smári: „Það er auðvitað mikill heiður að vera treyst fyrir svona hlutverki og það er jú virkilega krefjandi að leika stórt hlutverk með miklum söng og hljóðfæraleik en maður er í þessu til að takast á við þessar áskoranir.“

Tara: „Það var auðvitað mikið stress sem fylgdi því að sjá nafnið mitt á „castinu“ en líka mikill spenningur og tilhlökkun.“

Nú eruð þið vel kunnug höfundum verksins, hvernig kom handritið ykkur fyrir sjónir við fyrsta lestur? 

Smári: „Ég var ekki með einhverjar brjálaðar væntingar þegar þau sögðu mér frá því á stjórnarfundi að þau væru með handrit sem þau vildu að við læsum með þeim en eftir að lesa það í fyrsta skiptið sá ég strax að þetta væri verk sem hefði mikla möguleika.“

Tara: „Ég sá strax að þetta handrit var að fara að breytast í stórt og flott leikrit.“

Hvað kom ykkur mest á óvart? 

Smári: „Það kom mér virkilega á óvart hversu vel þau náðu að fletta söngtextana við söguþráðinn.“ 

Tara: „Það sem kom mér mest á óvart var að leikritið endar ekki eins og flest leikrit gera.“

Segið mér aðeins frá leikhópnum. 

Smári: „Leikhópurinn er mjög þéttur og það er gaman að sjá svona margt nýtt fólk sem er að standa sig frábærlega.“

Tara: „Leikhópurinn er yndislegur, ekki oft sem stór leikhópur eins og þessi nær svona vel saman.“

Er þessi uppsetning ólík öðrum sem þið hafið tekið þátt í og þá hvernig? 

Smári: „Já það er auðvitað sérstakt að setja upp nýjan söngleik, ég hef séð einhverjar gamlar uppsetningar af flestum sýningum sem við höfum sett upp en núna hefur maður ekkert til að bera saman við sem gerir manni kleift að skapa karakterinn sinn alveg frá grunni.“

Tara: „Já ég myndi segja að þetta verk sé ólíkt öðrum þar sem allt byggist ekki á gríninu, það koma svo miklar tilfinningar fyrir í þessu verki og ég held að áhorfendur muni ekki vita hvernig þeim líður á pörtum.“

Hvernig hafa æfingar gengið? 

Smári: „Æfingar hafa gengið mjög vel, við erum mjög vel stödd miðað við hversu „langt“ er í frumsýningu.“

Tara: „Æfingarnar hafa gengið mun betur en ég bjóst við. Það er rosalega mikið að gerast í þessari sýningu og það er eiginlega bara aðdáunarvert hversu fljótt strákarnir í hljómsveitinni, dansarar og leikarar eru búnir púsla sýningunni saman.“

Hvað er erfiðast við að vera áhugaleikari? 

Smári: „Ég held að það sé erfiðast að finna klukkutímana í sólarhringnum til að sinna þessu almennilega verandi í 100% vinnu og að maður er nánast ekkert heima hjá sér í sjö til níu vikur – en það hjálpar mér hvað ég á ofboðslega þolinmóða konu.“

Tara: „Erfiðast er örugglega að skipulag er besti vinur manns, maður þarf að púsla saman vinnu, námi, æfingum og tíma með ástvinum.“

Hvað er skemmtilegast? 

Smári: „Það er þessi félagsskapur, þegar maður vinnur svona mikið og lengi með sama hópnum verður hann svo náinn og maður er alltaf að kynnast nýju fólki, nú er ég búinn að vera í leikfélaginu í tíu ár og mörgum af mínum bestu vinum hef ég kynnst hér.“

Tara:  „Félagsskapurinn er auðvitað það skemmtilegasta, það eru allir þarna á sömu forsendum og er það áhuginn fyrir leikhúsinu.“

Eigið þið ykkur draumahlutverk/sýningu að setja upp?

Smári: „Ég held að það sé Litla hryllingsbúðin og ég er svo heppinn að hafa leikið í þeirri sýningu árið 2017.“

Tara: „Draumasýning sem ég væri til í að taka þátt í er ábyggilega Mamma Mia þar sem blandað væri eldri og nýju myndunum saman.“

Hvernig er að leika á sviði með höfundum verksins?

Smári: „Ég hef auðvitað leikið mikið með þeim síðustu ár en það er í rauninni ekkert öðruvísi þar sem þau hafa sett sýninguna í hendur leikstjórans.“ 

Tara:  „Það getur stundum verið skrítið þar sem maður vill alltaf gera hlutina eins og þau voru búin að ímynda sér en Brynja og Ómar eru svo yndisleg og vilja að allir myndi sinn eigin karakter.“

Hvernig er leikstjórinn Karl Ágúst að standa sig? 

Smári: „Karl Ágúst er algjör fagmaður fram í fingurgóma! Ég vann með honum í Fló á skinni og þegar tækifærið gafst fyrir okkur að fá hann í þetta verkefni þá þurftum við ekki að hugsa okkur um tvisvar. Það hefur verið frábært að vinna með honum að þessu verki og ég vona innilega að þetta verði ekki síðast verkefni sem við vinnum með honum.“

Tara:  „Kalli er svo æðislegur og stendur sig frábærlega. Hann vill allt það besta fyrir alla og erum við komin mjög langt með verkið miðað við að það er rúm vika í frumsýninguna og það er  honum að þakka.“

Höfundarnir Ómar og Brynja hafa unnið að handritinu í nærri þrjú ár.

Hljómsveitin í Fyrsta kossinum.