Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Leikföng Helgu fá framtíðarheimili
Laugardagur 20. ágúst 2016 kl. 06:00

Leikföng Helgu fá framtíðarheimili

- Leikfangasafn opnað á Ljósanótt

Lista- og hannyrðakonan Helga Ingólfsdóttir hefur undanfarin ár safnað leikföngum frá gamalli tíð. Hún fagnar sjötugsafmælinu í haust og átti sér þann draum að opna leikfangasafn fyrir afmælið og nú er draumurinn við það að rætast. Helga fékk húsnæði í Grófinni í Reykjanesbæ og er þar ásamt góðu aðstoðarfólki að leggja lokahönd á safnið sem verður formlega opnað á Ljósanótt. „Við höfum fundið fyrir miklum velvilja fólks alls staðar. Það gerir okkur greiða og tekur lítið sem ekkert fyrir,“ segir hún.

Á Safnahelgi í febrúar hélt Helga sýningu á leikföngum í Virkjun á Ásbrú og komu á fjórða hundrað gestir. Hún hélt einnig sýningu á Ólafsfirði árið 2014. Leikföng Helgu hafa nú fengið framtíðarhúsnæði í Grófinni og er hún hæstánægð með það. Á leikfangasafninu mun kenna ýmissa grasa. Þar verða brúður í þjóðbúningum, Star Wars dót, bangsar, strumpar, tröll, gamlir sparibaukar, bílar og margt fleira. Nokkra af þjóðbúningunum á brúðurnar saumaði og prjónaði Helga sjálf en aðrar brúðunum keypti hún tilbúnar í þjóðbúningum. Hún ætlar að vera með fræðslu um íslensku þjóðbúningana almennt á safninu. Þá ætlar hún einnig að gera þjóðsögum hátt undir höfði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Yngsta barn Helgu er með fötlun og var hún því mikið heima þegar það var lítið. „Þá hafði ég ekki mörg tækifæri til tómstunda en þegar færi gafst kíkti ég í Handprjónasambandið sem þá var í miðbæ Reykjavíkur. Þar sá ég fyrst brúður í þjóðbúningum og fór að prufa sjálf að sauma heima,“ segir Helga. Síðar dvaldi hún mikið í Svíþjóð þar sem leikfangaáhuginn kviknaði fyrir alvöru. Þar voru seld gömul leikföng á mörkuðum og gerði Helga góð kaup þar. Mörg leikfanganna á safninu hefur Helga keypt á nytjamörkuðum, á netinu og úr dánarbúum. Á safninu verður málverk eftir myndlistarkonuna Ástu Árna úr Keflavík en Helgu áskotnaðist sú mynd fyrir einskæra tilviljun. „Ég var að kaupa nokkrar dúkkur úr dánarbúi eldri konu. Svo þegar ég var að fara hljóp dóttir konunnar á eftir mér og bað mig endilega um að taka þessa mynd líka. Svo sá ég það bara heima að myndin er eftir Ástu. Það má því segja að hún sé komin heim aftur,“ segir Helga.

Leikfangasafnið verður opið alla daga um Ljósanæturhátíðina.


Á myndinni má sjá frá vinstri Helgu Ingólfsdóttur, ásamt aðstoðarfólki sínu, þeim Sigríði Þóru Gabríelsdóttur, Rósu Jónsdóttur og Birni Ragnarssyni.

Leikfangasafnið verður til framtíðar í þessu húsi í Grófinni.

Myndin er eftir Ástu Árnadóttur úr Keflavík og áskotnaðist Helgu fyrir tilviljun.

Hvíti hesturinn á myndinni er kallaður Júlíönnu-hestur og er frá 19. öld. Hestinn gerði Júlíanna Halldórsdóttir frá Öndundarfirði. Sagt er frá því í tímaritinu Fálkanum frá árinu 1942 að hestarnir hafi notið mikillar hylli meðal barna á þeim tíma, enda búnir til af slíkum hagleik að furðu gegndi. Vitað er um þrjá til fjóra hesta sem hafa varðveist. Þennan keypti Helga í Kompunni, nytjamarkaði á Ásbrú.