Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Leikfélagið nauðsynlegt fyrir þá sem eru hræddir við boltann
Laugardagur 11. febrúar 2012 kl. 11:37

Leikfélagið nauðsynlegt fyrir þá sem eru hræddir við boltann



Nú er lokið inntökuferli í nám á leikarabraut við Listaháskóla Íslands. Að venju var fjöldi umsókna mikill en að loknum inntökuprófum var tíu nemendum boðin skólavist næsta haust. Meðal þeirra nemenda sem fékk inngöngu er Keflvíkingurinn Albert Halldórsson en hann verður 25 ára á árinu. Albert kom í stutt spjall til Víkurfrétta í vikunni

Albert byrjaði mjög ungur að fara í leikhús til þess að sjá bróðir sinn leika með Leikfélagi Keflavíkur. „Mér fannst þetta svakalega spennandi heimur og þegar ég var 12 ára þá var sett upp barnaleiksýningin Litla stúlkan með eldspýturnar hjá Leikfélagi Keflavíkur. Þar lék ég ævintýraálf í mínu fyrsta hlutverki. Það var mikið stuð þannig að ég hélt áfram og lék síðan í þó nokkrum sýningum eftir það og áhuginn óx með hverri uppfærslunni,“ segir Albert. Þannig að það má segja að þetta sé æskudraumurinn og að ég hafi smitast af þessari svokölluðu leiklistarbakteríu snemma.
Albert hefur leikið mikið með Leikfélagi Keflavíkur og segir hann það hafa verið mjög gaman. „Ég gat aldrei neitt í þessum íþróttum sem ég prófaði, sem var alveg heill hellingur, þannig að mér finnst starf Leikfélags Keflavíkur vera bráðnauðsynlegt fyrir krakka eins og mig sem eru hræddir við boltann, já eða hafa áhuga á því að leika.“
Albert hefur einnig leikið í sýningu hjá Stúdentaleikhúsinu og heillaðist af því að setja upp sýningu sem unnin er frá grunni með leikhópnum, eða svokallaða spunasýningu.

Síðan lág leið Alberts í Kvikmyndaskóla Íslands árið 2010 og þar hefur Albert verið að læra leiklist í eitt og hálft ár. „Það nám hefur hjálpað mér mjög mikið og ég hef lært þar heilan helling og kynnst skemmtilegu fólki.“
Lengi hefur það verið draumur Alberts að komast inn í LHÍ að læra leiklist en hann sótti þar um fyrir tveimur árum síðan og komst ekki inn. Síðan sótti hann aftur um núna ásamt um það bil 170 umsækjendum og var þar einn af tíu sem komst inn í námið sem er eins og gefur að skilja mjög eftirsóknarvert.

Erfitt inntökuferli

Inntökuferlið er í 3 þrepum og síðan fækkar í hverju þrepi. Þetta var mjög skemmtilegt en sömuleiðis erfitt inntökuferli að sögn Alberts. Sérstaklega segir hann þetta hafa verið taugatrekkjandi þegar 20 manns voru eftir og allir áttu fullt erindi inn í skólann.

„Þegar ég var yngri þá gerði leiklistin heilan helling fyrir mig. Maður losnaði smá við feimni sem fylgir því að vera unglingur í mútum. Í dag finnst mér undirbúningsferlið í kringum leiklistina mjög skemmtilegt, til dæmis persónusköpun. Ég get einhvernveginn gert fullt af hlutum spennandi fyrir sjálfum mér ef ég horfi á hlutina út frá leiklistinni. Ég hef líka mjög gaman að því að fylgjast með fólki. Sérstaklega skrítnu fólki niðrí bæ og nýta mér það einhvernveginn í leiklistinni,“ segir Albert sem er þessa dagana á fullu í Kvikmyndaskólanum að klára 3. önnina sína en þess á milli leikur hann í stuttmyndum samnemenda sinna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024