Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 22. október 2001 kl. 09:59

Leikfélag Keflavíkur setur upp Bar Par

Leikfélag Keflavíkur er nú að leggja lokahönd á uppsetningu sína á leikritinu Bar Par eftir Jim Cartwright en leiritið verður frumsýnt 27. október nk. Að sögn Guðnýjar Kristjánsdóttur formanns Leikfélags Keflavíkur er þessi uppsetning hápunkturinn í starfi leikfélagsins fyrir áramót. Um 12 manns taka þátt í sýningunni og er bæði um að ræða gamalreynda leikarar og nýtt fólk sem er að taka þátt í sinni fyrstu sýningu. Steinn Ármann Magnússon leikstýrir verkinu sem verður sýnt í Frumleikhúsinu. „Sýningarfjöldi fer eftir aðsókn en auðvitað vonum við að þær verði sem flestar“, segir Guðný. Jim Cartwright skrifaði einnig leikritið Stræti sem leikfélagið setti upp fyrir nokkrum árum. „Bar Par hefur verið sett upp þrisvar áður hér á landi m.a.  í Borgarleikhúsinu og á Akureyri en við erum fyrsta áhugaleikfélagið sem setur það upp.“
Starf leikfélagsins er mjög öflugt og er nú þegar byrjað að huga að verkefni eftir áramótin. „Við erum í viðræðum við fulltrúa leikfélags FS, Vox Arena um sameiginlegt verkefni“, segir Guðný en talað hefur verið um að setja upp söngleikinn Hárið. „Þetta er allt á byrjunarstigi en það væri mjög gaman ef af samvinnunni gæti orðið.“ Í sumar stóð leikfélagið fyrir götuleikhúsnámskeiði en afraksturinn var sýndur á Ljósanótt. „Við fengum mjög góðar viðtökur frá bæjarbúum og ætlum að halda okkur við efnið. Við erum tilbúin að koma fram við hin ýmsu tilefni“, segir Guðný. Félagsmenn í Leikfélagi Keflavíkur greiða engin félagsgjöld heldur er starfssemin aðallega fjármögnuð með styrkjum. „Bærinn hefur stutt vel við bakið á okkur og án styrkja frá bæjarfélaginu væri varla grundvöllur fyrir rekstri félagsins.“ Leikfélagið hefur einnig leigt út Frumleikhúsið þannig að önnur starfsemi hefur aðgang að húsinu. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024