Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Leiðsöguvinirnir Hossam og Nanný
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 29. janúar 2022 kl. 11:00

Leiðsöguvinirnir Hossam og Nanný

Hossam Al Shmere er fæddur 30. júlí 1977 í Bagdad í Írak. Hann er einn fjölmargra sem leituðu til Evrópu eftir betra lífi, enda hefur þjóðfélagsástandið í Írak verið erfitt í mörg ár. Hann hafði m.a. starfað á hótelum í Evrópu. Hann segist hafa lesið sig til um Ísland og langað að koma hingað og lét verða að því árið 2020. Í samtali við Víkurfréttir segir Hossam að honum líki vel við veðurfarið á Íslandi. Krappar vetrarlægðir séu ekki að trufla hann, hann kunni vel við fersk loftslagið á Íslandi.

Frá því Hossam kom til Íslands hefur hann m.a. verið skjólstæðingur Rauða krossins og þar á bæ er boðið upp á eitthvað sem kallast „leiðsöguvinur“. Þar sem Hossam býr í Reykjanesbæ bauðst honum að fá leiðsöguvin í bæjarfélaginu. Þar kemur Rannveig L. Garðarsdóttir til sögunnar. Hún starfar á Bókasafni Reykjanesbæjar og er einnig leiðsögumaður sem fer með fólk í gönguferðir um Reykjanesskagann. Hún hefur einnig unnið sem leiðsöguvinur hjá Rauða krossinum.

„Að vera leiðsöguvinur þýðir að maður ætli að kynnast einhverjum sem er að koma til landsins og verða vinur hans, deila reynslu, persónulegum sögum og aðstoða ef það er eitthvað sem hinn aðilinn þarf á að halda við að komast inn í íslenska menningu, vinnumarkaðinn, kynnast fólki eða hvað sem er, þá eru leiðsöguvinir til staðar til þess.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ef að vinur manns er að læra íslensku þá getur hann nýtt sér þessa fundi við leiðsöguvin til að tala íslensku, því þegar verið er að læra íslensku þá er oft erfitt að finna einhvern til að æfa sig með,“ segir Rannveig, sem við flest þekkjum sem Nanný, í samtali við Víkurfréttir.

„Gaman að læra íslensku“

Hossam segir að það séu komnir sex eða sjö mánuðir síðan þau Nanný kynntust fyrst. Hann kallar Nanný hins vegar Nínu og hún sé bara ánægð með það.

Hossam hefur frá því hann kom til Íslands sótt fjögur námskeið í íslensku hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og er bara nokkuð duglegur að bjarga sér á íslenskri tungu. Þegar hann ákvað að mæta í viðtal við Víkurfréttir ásamt Nanný, leiðsöguvini sínum, þá vildi Hossam helst tala íslensku í viðtalinu og hóf samtalið á kynningu á sér og sínu áhugasviði.

„Ég heiti Hossam og ég bý í Keflavík. Ég er fæddur 30. júlí 1977. Ég er frá Írak og kom til Íslands árið 2020. Ég er ekki giftur og ég er að læra íslensku. Ég hef farið á fjögur íslenskunámskeið. Ég tala arabísku, ensku og smá íslensku. Mér finnst gaman að læra íslensku og mér líður vel á Íslandi,“ segir hann.

Hann segist læra mest með því að lesa, skrifa og tala. „Mér finnst gaman að lesa ljóð, fletta dagblöðunum og hlusta á fréttir. Ég les fréttir alla daga og hef kynnst því að íslenskan er mjög erfið en ég elska að læra þetta tungumál. Ég elska Ísland og kom hingað eftir að hafa lesið mikið um landið.“

Oft er talað um að Íslendingar séu lokaðir en því er Hossam alls ekki sammála. Landsmenn séu opnir og heiðarlegir. Landið sé friðsamt, öruggt og vandræðalaust.

Með skrifblokk fulla af íslenskum ljóðum

Hossam er þessa dagana að semja ljóð og það á íslensku, sem hann segir hjálpa sér mikið við íslenskunámið. Hann er þegar búinn að fylla litla skrifblokk sem hann ber í brjóstvasanum af ljóðum á íslensku.

„Þetta er fallegur kveðskapur sem lýsir m.a. upplifun hans af Íslandi og því sem fyrir augu ber, hans reynsla og upplifun,“ segir Nanný um ljóðin.

Þegar hann skrifar ljóðin þá nýtir hann sér þýðingarforrit Google þar sem hann finnur réttu orðin á íslensku og handskrifar þau svo í vasabókina sína.

Nanný tekur undir ljóðaáhuga Hossam og segir hann duglegan að læra íslensk ljóð sem hann fari svo með þegar hann kemur til fundar við sinn leiðsöguvin. „Ljóðin sem hann semur eru falleg og full af pælingum,“ segir hún.

Hossam er í dag án atvinnu en er í atvinnuleit. Hann var áður í tímabundnu starfi hjá jarðvinnuverktaka, var þar á skóflunni eins og sagt er. Sú vinna fór aðeins í bakið á honum en hann segist vera að jafna sig á þeim meiðslum og verði brátt klár í starf að nýju, enda vilji hann verða góður og gegn þjóðfélagsþegn og vinna fyrir sér.

„Tölum mikið saman“

Nanný, hvernig hefur þú verið að aðstoða hann?

„Við höfum verið að hittast hérna á bókasafninu. Við höfum einnig farið rúnt um Reykjanesið. Við erum að fara saman á kaffihús og bara gera allskonar. Við tölum mikið saman. Ég segi honum frá mínu lífi og hann segir frá sínu. Ef það vantar eitthvað þá get ég aðstoðað hann við það. Ég hef verið að aðstoða hann við að vita hvernig atvinnulífið virkar á Íslandi, hvernig verkalýðsfélögin starfa, hvaða réttindi hann hefur, hvað þurfi að vinna lengi til að fá útborgað. Það er fullt af svona hlutum sem fólk veit ekki þegar það er að koma inn á íslenskan vinnumarkað í fyrsta skipti.“

Nanný og Hossam eru sammála um að verkefnið leiðsöguvinur sé skemmtilegt. Vinum sé úthlutað til sex mánaða í senn. „Við getum haldið áfram að vera vinir eftir þessa sex mánuði en að þeim tíma liðnum þá fæ ég úthlutað öðrum vini,“ segir Nanný og segist sjálf læra svo margt af þessu vinasambandi, að setja sig inn í heim þessa fólks sem er að koma til Íslands. Hossam segist vilja halda áfram vinskapnum eftir að þessu sex mánaða tímabili ljúki.

Aðspurður um framtíðardrauma segir Hossam að hann langi að eiga framtíð hér á landi. Hér sé hreint loft og afslappandi umhverfi. Hvort hann langi að koma sér upp fjölskyldu á Íslandi, þá segir hann það alls ekki vera forgangsatriði.