Leiðsögn um Þorrablótið sem slegið hefur í gegn
Sunnudaginn 4. mars kl. 15:00 verður myndlistarkonan Aðalheiður S. Eysteinsdóttir með leiðsögn um sýningu sína , „Á Bóndadag,“ sem nú stendur yfir í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum. Þar hefur Aðalheiður ásamt gestalistamönnunum, Guðbrandi Siglaugssyni, Gunnhildi Helgadóttur, listatvíeykinu Ar-Se; Sean Millington og Arnari Ómarssyni, Nikolaj Lorentz Mentze og Jóni Laxdal Halldórssyni, umbreytt Listasalnum í félagsheimili þar sem þorrablót stendur yfir með tilheyrandi áti og skemmtanahaldi. Það er óhætt að segja að sýningin hafi slegið í gegn en hundruð gesta hafa lagt leið sína í safnið og tekið þátt í þorrablótinu.
Sýningin er 34. sýningin í röð 50 sýninga sem bera yfirskriftina Réttardagur og fjalla allar á einn eða annan hátt um sauðkindina og þau mótunaráhrif sem bændamenningin hefur haft á okkur Íslendinga sem þjóð. Markmið verkefnisins er að sýna breiða mynd af samfélagi sem lætur lítið yfir sér en er engu að síður undirstaða vænlegs lífs. Hinar ýmsu hliðar menningar sem við tökum sem sjálfsögðum hlut og hugum því ekki að dags daglega, eins og mikilvægi hversdagsleikans.
Sýningin stendur til 18. mars og er opin frá kl. 12.00 – 17.00 virka daga og 13.00 – 17.00 um helgar og aðgangur er ókeypis.