Leiðsögn um sýninguna „Fast þeir sóttu sjóinn“ í Duus
Sunnudaginn 21. mars kl. 14.00 og 15.00 verður Byggðasafn Reykjanesbæjar með leiðsögn um bátasafn Gríms Karlssonar á milliloftinu í Duus safnahúsum. Helgi Biering segir frá því sem fyrir augu ber og svarar spurningum sem kunna að vakna.
Á milliloftinu í Duus safnahúsum stendur yfir ný fastasýning Byggðasafns Reykjanesbæjar „Fast þeir sóttu sjóinn - Bátasafn Gríms Karlssonar.“ Sú sýning er endurgerð sýning á bátalíkönum Gríms. Bátafloti Gríms Karlssonar var fyrsta sýningin sem opnuð var í Duus Safnahúsum fyrir nærri nítján árum og hefur nú fengið endurnýjun lífdaga í rými sem skapar áhugaverða umgjörð um bátalíkönin.
Á nýju sýningunni gefur að líta nánast öll módel Gríms í eigu Byggðasafnsins, sem eru alls 136 bátalíkön. Jafnframt eru líkönin nýtt til að segja sögu vélbátaútgerðar í Keflavík og Njarðvík. Að auki er þar einnig fjallað um hafnargerð, skipasmíðar, veiðar og annað er tengist útgerðinni. Þá mun sýningargestum gefast kostur á því að taka í stýrið innan í endurgerðu stýrishúsi og skut í raunstærð á minni gerð vélbáta.