Leiðsögn Rögnu Fróða um sýninguna Endalaust

- Furðuverusmiðja fyrir fjölskyldur

HANDVERK OG HÖNNUN og Listasafn Reykjanesbæjar bjóða upp á leiðsögn sýningarstjóra, Rögnu Fróða, um sýninguna Endalaust og hefst hún kl. 14. Samtímis verður boðið upp á Furðuverusmiðju fyrir alla fjölskylduna og er hún opin frá kl. 14-16. Gestir eru velkomnir á báða viðburði, eða annan hvorn, eftir hentugleika. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
 


Sýningin Endalaust er sýning á verkum 20 hönnuða og handverksfólks sem eiga það sameiginlegt að vinna með endurunna hluti og hráefni sem annars færi forgörðum. Við undirbúning sýningarinnar var litið yfir víðan völl og reynt að koma saman hönnuðum sem vinna á breiðum grundvelli. Hönnuðum sem eiga það jafnframt sameiginlegt að koma inn á því stigi hringrásarinnar að þeirra hlutverk er að gjörnýta hráefni sem annars er litið á sem rusl. Breiður grundvöllur og ólíkir hönnunargripir voru þannig lykilorð sýningarstjórans Rögnu Fróða þegar hún valdi verk inn á sýninguna. 
 


Handaband: Furðuverusmiðja fyrir fjölskyldur
 

Þátttakendur fá tækifæri til að skapa sína eigin furðuveru sem er gerð úr endurunnum textílefnum sem féllu til við framleiðslu á Íslandi. Efnin sem notuð verða koma frá Umemi, Glófa og Cintamani. Allir eru hvattir til að segja söguna af furðuverunni og leyfa öðrum að kynnast henni betur.
 

 
Safnið er opið alla daga 12.00-17.00 og sýningin stendur til 4. nóvember.