Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Leiðsögn og síðasta sýningarhelgi
Laugardagur 27. apríl 2013 kl. 09:25

Leiðsögn og síðasta sýningarhelgi

Byggingarfræði og þyngdarafl – þrívíddarverk Hallsteins Sigurðssonar

Laugardaginn 27. apríl kl. 14:00 verður boðið upp á leiðsögn í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum þar sem stendur yfir sýning á verkum myndhöggvarans Hallsteins Sigurðssonar sem ber yfirskriftina Byggingarfræði og þyngdarafl. Þar mun Hallsteinn sjálfur ásamt Aðalsteini Ingólfssyni sýningarstjóra og listfræðingi taka á móti gestum og leiða um sýninguna.

Hallsteinn hóf sýningarhald um miðjan sjöunda áratuginn og á nú að baki hartnær fimmtíu ára feril. Hann nam höggmyndalist í Reykjavík og Bretlandi, fór svo námsferðir til Ítalíu, Grikklands og Bandaríkjanna. Hallsteinn er einn helsti fulltrúi hins opna og rýmissækna málmskúlptúrs hér á landi, en sá skúlptúr á sér rætur í verkum myndlistarmanna á þriðja og fjórða áratug aldarinnar. Hann hefur haldið á annan tug einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum víða um lönd.

Verk eftir Hallstein er að finna í öllum helstu söfnum á landinu, en auk þess á almannafæri í Borgarfirði, að Vífilsstöðum, í Grímsnesi, í Borgarnesi, á Húsavík, Ísafirði, Seltjarnarnesi, Keldnaholti, Búðardal og víða í landi Reykjavíkur; til að mynda er úrval mynda eftir hann nú að finna í Gufunesi.

Spurður um útskýringu á verkum sínum tekur Hallsteinn sér í munn orð Ásmundar frænda síns þar sem hann segir: „Myndhöggvarar hugsa fyrir horn, málarinn hugsar á fleti.“ Og bætir við frá eigin brjósti: „Þetta er afskaplega einföld og góð útskýring á því hvernig myndhöggvarar hugsa.“

Þetta er fyrsta einkasýning Hallsteins í Listasafni Reykjanesbæjar. Á sýningunni gefur að líta rúmlega þrjátíu verk, þ. á m. mörg „svif“ eða „hreyfildi“ sem ekki hafa áður sést á einum stað. Sýningunni fylgir vönduð sýningarskrá með fjölda ljósmynda og inngang eftir Aðalstein Ingólfsson.

Sýningunni lýkur 1. maí. Hún er opin virka daga frá kl. 12.00-17.00 og um helgar frá kl. 13.00-17.00 og aðgangur er ókeypis. Nánar á reykjanesbaer.is/listasafn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024