Laxnessfjöðrin afhent í Stapa
Viðurkenningar til ungs fólks.
Laxnessfjöðrin var nýverið afhent við hátíðlega athöfn í Stapa. Samtök móðurmálskennara völdu grunnskólana á Suðurnesjum til að taka þátt í verkefninu Laxnessfjöðrin á þessu skólaári. Viðurkenningunni er ætlað að örva æskufólk til að leggja rækt við íslenska tungu með námskeiði í ritun og sköpun og verðlauna börn og unglinga fyrir ritlist.
Kynnir var rithöfundurinn og þýðandinn Rúnar Helgi Vignisson, en hann sagði m.a. að besta leiðin til að verða góður textahöfundur sé að lesa margt efni eftir aðra höfunda. Hvatti hann nemendur til að tileinka sér lestur og njóta hans. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, afhenti Laxnessfjöðrina og fengu fjórir nemendur fjöðrina fyrir smásögur sínar auk þess sem eitt hópverkefni fékk viðurkenningu. Það verkefni var kynnt við afhendinguna.
Vigdís sagði nemendum söguna af því hvernig Erlingur Jónsson, myndhöggvari og bæjarlistamaður Reykjanesbæjar, líkir Halldóri Laxness við örn sem svífur yfir og hefur allt á valdi sínu með sinni óumræðanlegu snilld og þegar hann fann arnarfjöður þá hugsaði hann með sér að þetta væri Laxnessfjöðrin og hún er fyrirmynd listaverksins sem staðsett er við gamla barnaskólann við Skólaveg hér í Reykjanesbæ. Nemendur 9. bekkjar fjögurra skóla á svæðinu tóku þátt í verkefninu; Grunnskólinn í Sandgerði, Holtaskóli, Njarðvíkurskóli og Myllubakkaskóli.