Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Laumað inn í Stapa 14 ára gömlum
Sunnudagur 4. mars 2018 kl. 08:00

Laumað inn í Stapa 14 ára gömlum

- Söngvaskáldið Magnús Kjartansson

Tónlistarmaðurinn fjölhæfi Magnús Kjartansson er næsta viðfangsefni Söngvaskálda á Suðurnesjum en hann á að baki fjölbreyttan feril og virðist hafa leikið með flestum hljómsveitum á Íslandi. Magnús hefur starfað sem lagahöfundur, tónlistarstjóri, píanóleikari, upptökustjóri, útsetjari og söngvari svo eitthvað sé nefnt en færri vita að tónlistarferill hans hófst í Drengjalúðrasveit Keflavíkur.

„Þar lærði ég að spila á trompet níu ára gamall hjá Herbert Ágústssyni en þar var ég svo heppinn að mamma sá um undirleik með lúðrasveitinni. Enda hef ég aldrei orðið stressaður á sviði, er alltaf bara á leið upp á svið með minni elskulegu mömmu í huganum, “ segir Magnús.
Lúðrasveitin spilaði víða þau ár sem hún starfaði og fór m.a. Í tónleikaferð í kringum landið með strandferðaskipinu Esju og vann  sér það jafnframt til frægðar að koma fram í sérstökum þætti sem Kanasjónvarpið gerði um hana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Svo nam ég píanóleik hjá Ragnari Björnssyni en þá var æft í bílskúrnum hjá Kalla á Ísbarnum og þar var maður fyrst laminn á puttana sem þætti ekki til fyrirmyndar í dag.”
Markmið Magnúsar var alla tíð að verða tónlistarkennari en hann átti eftir að fara aðra leið.
„Keflavík var orðinn Bítlabær og það var mikil gróska í tónlistarlífinu. Þar var allt að gerast og þá ekki síst í kringum völlinn. Það voru amerískir hermenn út um allt og strákarnir gengu í smygluðum gallabuxum. Þá fórum við strákarnir að safna hári eins og bítlarnir.”

Trompetleikurinn gerði það að verkum að Magnús komst fyrst í Stapann 14 ára gamall en þá höfðu Hljómar beðið hann um að leika trompetpart með sér.
„Strákarnir laumuðu mér inn bakdyramegin enda hafði ég ekki aldur til að vera þar inni, ég passaði mig samt á því að fara ekki út eftir trompetleikinn svo þetta var líka fyrsta ballið mitt,” segir Magnús og hlær.

Magnús minnist þess að hafa fylgst með æfingum Hljóma í Krossinum í mikill andtakt og hafði þá ekki órað fyrir því að hann ætti eftir að spila með Rúnna og Gunnari í vinsælustu hljómsveit Íslands, Trúbrot.
„Það var ekki hægt að lifa á tónlistinni einni saman og því var maður að vinna í frystihúsi Sjöstjörnunnar í Keflavík. Þar kynntist ég ungri stúlku, Patricia Owens sem seinna tók sér listamannsnafnið Shady. Mér varð strax vel við stúlkuna og hún fékk að syngja með Óðmönnum á klúbbunum upp á vell eða alveg þangað til Hljómar stálu henni sem voru að sjálfsögðu mikil vonbrigði.”
En vonbrigðin áttu ekki eftir að endast lengi því vorið 1970 bauðst Magnúsi að ganga til liðs við Trúbrot sem var þá án nokkurs vafa stærsta hljómsveit landsins.

Hjónaband á mánudagsmorgni

Trúbrot átti erfitt með að fóta sig á sveitaballamarkaðnum en ein slík tilraun endaði með því að Magnús gekk í hjónaband á mánudagsmorgni.
„Það kom ekki kjaftur á ballið en messufallið hafði áhrif á fjárhaginn og þá var illt í efni. Ég og unnusta mín, Sigríður Kolbrún Oddsdóttir, hófum þegar um helgina undirbúning þess að giftast svo hægt væri að leysa út sparimerkin. Fulltrúi sýslumanns brá þegar hann heyrði erindið og fékk leyfi hjá þeim til að fara heim í sturtu. Á meðan sátum við á skrifstofunni í bættum gallabuxum og hippamussum.”

Eiginkona Magnúsar kemur einmitt við sögu í einu þekktasta laga hans, Skólaball, þar sem sungið er um unglingsástir en að lokum varð stúlkan í laginu hans.
„Það vissu einhverjir að ég hafði samið þennan texta og lag því það vantaði lag á plötu sem Brimkló gerði á sínum tíma. Þetta bara lak úr pennanum og varð til. Þarna var ég að rifja upp það sem við kölluðum skólaböll og æskulýðsböll um helgar. Við vorum tveir mjög góðir vinir að slást um sömu stúlkuna eins og gerist og gengur. Ég tók þetta mjög alvarlega víst, samkvæmt textanum. Og ekki lýgur minnið þegar maður skrifar svona,“ segir Magnús brosandi.

Á um­rædd­um stað hef­ur nú verið sett­ur upp stór og mik­ill tréljósastaur frá þess­um árum, þar sem lesa má um til­urð lags­ins og texta og jafn­framt er hægt að hlusta á brot úr lag­inu.
Sviðið er að sögn Magnúsar vinnustaðurinn hans og starfar hann enn í dag við tónlist og stjórnar einum kór á Suðurnesjum, Sönghóp Suðurnesja sem oft hefur flutt þekkt lög Magnúsar og því óhætt að segja að þau lifi mörg góðu lífi enn í dag.

Tónleikarnir um Magnús verða haldnir í Bergi, Hljómahöll, og hefjast þeir stundvíslega kl. 20:00. Flytjendur eru Dagný Maggýjar, Elmar Þór Hauksson og Arnór B. Vilbergsson. Miðasala fer fram á hljomaholl.is.