Laumað inn í Stapa 14 ára gömlum
- Söngvaskáldið Magnús Kjartansson
Tónlistarmaðurinn fjölhæfi Magnús Kjartansson er næsta viðfangsefni Söngvaskálda á Suðurnesjum en hann á að baki fjölbreyttan feril og virðist hafa leikið með flestum hljómsveitum á Íslandi. Magnús hefur starfað sem lagahöfundur, tónlistarstjóri, píanóleikari, upptökustjóri, útsetjari og söngvari svo eitthvað sé nefnt en færri vita að tónlistarferill hans hófst í Drengjalúðrasveit Keflavíkur.
„Þar lærði ég að spila á trompet 9 ára gamall hjá Herbergi Ágústssyni en þar var ég svo heppinn að mamma sá um undirleik með lúðrasveitinni. Enda hef ég aldrei orðið stressaður á sviði, er alltaf bara á leið upp á svið með minni elskulegu mömmu í huganum, “ segir Magnús.
Lúðrasveitin spilaði víða þau ár sem hún starfaði og fór m.a. Í tónleikaferð í kringum landið með strandferðaskipinu Esju og vann sér það jafnframt til frægðar að koma fram í sérstökum þætti sem Kanasjónvarpið gerði um hana.
„Svo nam ég píanóleik hjá Ragnari Björnssyni en þá var æft í bílskúrnum hjá Kalla á ísbarnum og þar var maður fyrst laminn á puttana sem þætti ekki til fyrirmyndar í dag.”
Markmið Magnúsar var alla tíð að verða tónlistarkennari en átti eftir að fara aðra leið.
„Keflavík var orðinn bítlabær og það var mikil gróska í tónlistarlífinu. Þar var allt að gerast og þá ekki síst í kringum völlinn. Það voru amerískir hermenn út um allt og strákarnir gengu í smygluðum gallabuxum. Þá fórum við strákarnir að safna hári eins og bítlarnir.”
Nánar er rætt við Magnús Kjartansson í Víkurfréttum í næstu viku.
Hér að neðan er myndskeið frá æfingu fyrir Söngvaskáld á Suðurnesjum en viðburðurinn verður í Bergi í Hljómahöll, fimmtudaginn 1. mars kl. 20:00. Miðasala er á tix.is
Hér að neðan er myndskeið frá æfingu fyrir Söngvaskáld á Suðurnesjum en viðburðurinn verður í Bergi í Hljómahöll, fimmtudaginn 1. mars kl. 20:00. Miðasala er á tix.is