Lásu ýmis móðurmál fyrir börnin
- Fjölþjóðleg menning í Grindavík.
Alþjóðadagur móðurmálsins var fyrir skömmu og í tilefni dagsins komu til foreldrar barna á leikskólanum Króki í Grindavík, með tælensku og pólsku sem móðurmál, og lásu fyrir börnin barnabækur á sínu móðurmáli. Lögð er áhersla á að mikilvægt sé að foreldrar lesi fyrir börn sín á sínu móðurmáli.
Börnum og kennurum fannst þessi tilbreyting að hlusta á annað tungumál mjög áhugaverð og skemmtileg.
Lestrarátakið er búið að standa yfir í fjórar vikur og hefur gengið ótrúlega vel. „Ormurinn“ þeirra, sem sýnir hversu mikið er lesið, lengist og lengist og er hann alveg að ná að bíta í skottið á sér.
Skólastjórnendur segja að nú verða allir að hjálpast að og vera duglegir að lesa fyrir börnin heima því átakinu ljúki 7. mars.
Um 100 móðurmál eru töluð á Íslandi. Unesco leggur ríka áherslu á réttinn til móðurmálsins og mikilvægi þess fyrir einstaklinginn og menningu þjóða. Á Króki eru 18 börn með annað móðurmál en íslensku. Tungumál sem eru töluð á heimilum barnanna eru arabíska, enska, filippeysk mál, serbókróatíska, pólska, tælenska og íslenska.
Myndir: Af vef Grindavíkurbæjar.