Las jólaguðspjallið og mamma spilaði Heims um ból á píanóið
Jólin mín - Ásta Björk Eiríksdóttir
Lögmaðurinn Ásta Björk Eiríksdóttir fékk alltaf kótilettur í raspi á sínu æskuheimili á aðfangadag. Nú er það hamborgarhryggur sem er borinn á borð. Hún finnur jólaandann koma yfir sig þegar gjöfum er pakkað inn á Þorláksmessu og platan Jólin Jólin með Svanhildi fær að óma. Svokölluð Obbu-terta er stór hluti af hátiðarhöldunum á heimili Ástu en hún er eftir sérstakri fjölskylduuppskrift.
Jólabíómyndin sem kemur þér í skapið?
The Holiday og Elf eru efst á lista, hvor með sinn sjarma.
Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir?
Ég verð víst að viðurkenna að Facebook hefur bjargað mér í þessum efnum síðustu ár. Ég vil samt ekki segja að ég sé hætt að senda jólakort. Mér finnst þetta svo skemmtileg hefð að ég er ekki tilbúin til að gefa hana alveg upp á bátinn. Einhver jólin munu því vinir og ættingjar fá alvöru kort frá mér.
Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar?
Á æskuheimilinu mínu voru jólin alltaf eins; Jólatréð var skreytt á Þorláksmessu og við systur fórum jólakortarúnt með pabba á aðfangadag. Þegar klukkan sló sex voru svínakótilettur í raspi með öllu tilheyrandi og Obbu-terta í eftirrétt. Eftir matinn las ég jólaguðspjallið og svo spilaði mamma Heims um ból á píanóið og við hin sungum með. Inga systir las á pakkana og svo þegar búið var að opna allt þá fórum við í tartalettur til Jennu frænku. Um kvöldið var svo lesið í jólabókunum, oftast í nýjum náttfötum. Eftir að eldri drengurinn okkar fæddist (fyrir 9 árum, ótrúlegt en satt) þá höfum við litla fjölskyldan haldið jólin heima hjá okkur og þá með aðeins breyttu sniði. Það sem hefur þó alltaf haldið sér er Obbu-tertan, hún er alveg ómissandi. Ég hef alltaf skellt í tvær, jafnvel þegar strákarnir voru pínulitlir og ekki var von á neinum gestum. Við köllum þetta Obbu-tertu því uppskriftina fékk mamma hjá Obbu föðursystur minni. Þegar við förum í jólaboð til foreldra minna þá spilar mamma líka alltaf á píanóið og við syngjum Heims um ból, svona í minningu jólanna í Björk. Síðustu ár höfum við Oddur boðið fjölskyldunni í humarsúpu í hádeginu á aðfangadag. Ég vona að það verði hluti af jólahefðum sem drengirnir mínir minnast með gleði í framtíðinni.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Ég man eftir grenjudúkkum sem amma Inga gaf okkur systrum þegar ég var kannski um það bil 7 ára. Mér fannst þær æðislegar.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Betri helmingurinn sér alfarið um eldamennskuna á aðfangadag og hefur oftast boðið uppá hamborgarhrygg með brúnuðum kartöflum, gulum baunum, rauðkáli og rjómalagaðri sveppasósu ala Oddur.
Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Þegar við pökkum inn gjöfunum og leggjum lokahönd á undirbúninginn. Það er yfirleitt á Þorláksmessukvöld. Þá set ég jólaplötuna hennar ömmu Ástu á fóninn, Jólin jólin með Svanhildi, sem er það allra jólalegasta. Reyndar er hún alltaf mikið spiluð í desember á mínu heimili, við misjafnar undirtektir heimilismanna.
Hefur þú verið eða gætir þú hugsað þér að vera erlendis um jólin?
Ég hef ekki verið erlendis um jólin en ég gæti alveg hugsað mér það. Fyrir nokkrum árum hefði svarið við þessari spurningu samt verið þvert nei. Ég hef orðið opnari fyrir breytingum svona með árunum, það er alveg nóg fyrir mig að hafa bara fjölskylduna mína.
Áttu þér uppáhalds jólaskraut?
Mamma gaf mér fyrir nokkrum árum rautt útskorið tréhjarta sem á sér sinn stað í eldhúsglugganum mínum og hef ég sett seríu í kring svo það sjáist nú vel. Mamma hefur líka gefið mér fallega jóladúka sem ég er voða hrifin af. Ég elska fallega dúka.
Hvernig verð þú jóladegi?
Jóladagur er kósýdagur og í raun bara beint framhald af aðfangadagskvöldi. Morgunmaturinn eru afgangar og svo er það auðvitað Obbu-tertan. Oftast er legið í leti frameftir degi og kíkt aðeins út með drengjunum ef veður er gott. Í fyrra var veðrið yndislegt og þá fórum við með sleða á fjallið okkar hér í Innri-Njarðvík. Seinnipartinn er fjölskyldan svo drifin í jólaboð og um kvöldið er tekið á móti gestum í spil og spjall.