Lars sýnir í Stokkhólmi og Róm - „Súrrealískt“
„Þetta er búið að vera frekar súrealískt en auðvitað líka mjög gaman og spennandi,“ segir Lars Jónsson, áhugaljósmyndari úr Keflavik en hann var að opna einkasýningu í Stokkhólmi og þá er hann þátttakandi í sýningu í Róm.
Lars hélt sína fyrstu einkasýningu í mars á þessu ári í Reykjavík og vakti hún verðskuldaða athygli. Hann opnaði vefsíðu með ljósmyndum og hann hefur m.a. selt all nokkrar myndir í gegnum hana. Aðilar í þessum löndum höfðu samband við Lars og buðu honum að sýna ytra.
„Árið 2021 hefur verið frábært ár fyrir mig. Vefsíðan larz.is opnaði og síðan þá hafa selst um 50 myndir og fjórar sýningar haldnar. Tvær sýningar heima og tvær erlendis. Vefsíðan hefur verið skoðuð um allan heim og vakið mikla athygli. Gallery í Róm og Stokkhólmi hafa boðið mér að sýna verkin mín sem hefur verið virkilega gaman. Svo er spennandi verkefni 2022 en þá mun ég sýna 3 verk á New York Expo sem er haldin á pier 90 Manhattan. Þannig þetta eru skemmtilegir tímar fyrir mig,“ sagði Lars í spjalli við Víkurfréttir en hann er nú staddur í Stokkhólmi. Þar sýnir hann 15 myndir sem er blanda af nyjum og bestu gömlu að hans sögn. Mun sýningin standa í viku. Myndir sem hann sýnir í Róm munu standa fram í mars en þar er hann partur af galleríi sem sýnir fjölda verka.