Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 31. ágúst 2001 kl. 09:04

Langir biðlistar í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Innritun í Tónlistarskóla Reykjanebæjar hefst í dag á skrifstofu skólans við Austurgötu 13 í Keflavík. Að sögn Haraldar Árna Haraldssonar, skólastjóra eru ekki komnar nákvæmar tölur um nemendafjölda en hann gerir ráð fyrir að skólinn verði fullskipaður.

Kennslan fer fram í grunnskólum
„Við erum með biðlista í flestar deildir og því miður þá lengist hann stöðugt“, segir Haraldur.
„Starfsemin verður með hefðbundnum hætti í vetur. Forskóli tónlistarskólans verður kenndur sem skyldugrein í grunnskólum Reykjanesbæjar í 1. og 2. bekk. Hefðbundin hljóðfærakennsla fer fram út í grunnskólunum fyrir nemendur í 3. – 6. bekk á skólatíma, en nemendur í 7. bekk og eldri fá sína hljóðfærakennslu annað hvort út í grunnskólunum eftir skólatíma eða í húsum tónlistarskólans við Þórustíg eða Austurgötu.“

Fjölgun nemenda í tölvudeild
Kennt verður á öllum stigum tónlistarnáms og í boði er nám á öll helstu hljóðfæri hins vestræna heims, að sögn Haraldar. Að auki býður skólinn upp á mjög vandað nám í tónlist á tölvur.
„Skólinn hefur yfir að ráða ákaflega góðu og öflugu tölvustúdíói til vinnslu tónlistar og viljum við leggja nokkra áherslu á það nám í vetur, m.a. með breyttu innihaldi og betri skilgreiningu hvers námsáfanga og með fjölgun nemenda í tölvudeildina. Að læra að vinna tónlist á tölvur er afskaplega áhugavert og nytsamlegt nám fyrir þann sem leggur stund á hefðbundið tónlistarnám. Tölvudeildin er valgrein og við viljum hvetja þá nemendur skólans sem komnir eru nokkuð áleiðis í tónlistarnámi sínu, til að kynna sér tölvudeildina, nú við innritun.“

Skemmtilegur félagsskapur í lúðrasveit
Haraldur hvetur þá sem hyggjast hefja nám í tónlistarskólanum í haust, að huga að málmblásturshljóðfærunum. „Það er spennandi og fjölbreytilegur flokkur hljóðfæra sem gefa síðan kost á skemmtilegu hljómsveitastarfi og félagslífi þegar ákveðinni færni er náð. Nemendur sem byrja að læra á blásturshljóðfæri nú í september, mega búast við því að geta byrjað að spila í lúðrasveit í febrúar, ef námið gengur eðlilega fyrir sig hjá viðkomandi“, segir Haraldur en að venju verður mjög öflugt hljómsveita- og samspilsstarf í skólanum í vetur auk kórs og bjöllukórs.
Söngdeildin er stöðugt að eflast og er nú svo komið að við getum ekki bætt við nema örfáum nemendum.

Ráðningar gengu vel
„Það hefur gengið ágætlega að ráða kennara í þær fáu stöður sem losnuðu. Það er alltaf að verða áhugaverðara fyrir tónlistarkennara, t.d. af höfuðborgarsvæðinu, að kenna við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, sérstaklega vegna samstarfs okkar við grunnskólana, sem er til mikillar fyrirmyndar og eftirbreitni fyrir þau sveitarfélög sem ekki hafa verið jafn framsýn í þessum málum og Reykjanesbær. Eftir þessu er tekið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024