Langar að viðhalda óperumenningu á Suðurnesjum
Verdi & Wagner 200 ára tónleikar í Hljómahöllinni á laugardag.
„Mig langar að viðhalda smá óperumenningu á Suðurnesjum með þessum tónleikum. Hér er einstakt tækifæri að koma og hlusta á frábæra söngvara í einstöku verki,“ segir Jóhann Smári Sævarsson, óperusöngvari úr bítlabænum Keflavík. Félag í hans eigu, Norðuróp, stendur fyrir hátíðartónleikunum VERDI & WAGNER en þeir verða í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ nk. laugardag 29. júní kl. 16.
„Við tökum aríur og atriði úr frægustu óperum Verdi og Wagner tveimur af stærstu óperuskáldum sögunnar sem komu fram á sjónarsviðið fyrir tveimur öldum síðan. „Óperur þessara snillinga eru fluttar í öllum helstu óperuhúsum heimsins enn í dag,“ segir Jóhann og bætir því við að Verdi og Wagner hafi verið frægir fyrir fallegar línur, dramatískar óperur og gríðalega margar þekktar og vinsælar perlur.
Norðuróp er óperufélag sem Jóhann Sævarsson stofnaði þegar hann starfaði á Akureyri en þaðan kemur nafnið, til að kynna óperuformið fyrir norðan. Hann flutti það síðan með sér þegar hann flutti aftur í heimabæinn, Keflavík.
Með Jóhanni Smára eru óperusöngvarar í fremstu röð, þau Bylgja Dís Gunnarsdóttir, Jóhann Friðgeir og Elsa Waage.
Bylgja Dís Gunnarsdóttir er Suðurnesjamanneskja og hefur verið virk í tónlistarlífinu í höfuðborginni að undanförnu og söng aðalhlutverk í tveimur síðustu verkefnum Norðuróps, Eugene Onegin í fyrrasumar og Tosku, árið á undan í Keflavíkurkirkju.
Elsa Waage er nýflutt til landsins og sló í gegn með hlutverki sínu í Il Trovatore eftir Verdi, í Hörpu í fyrra, þar var Jóhann Friðgeir í titilhlutverkinu. Jóhann Friðgeir var í framlínunni í Hljómahöllinni í fyrra með Jóhanni Smára. Þeir „Jóarnir“ vinna vel saman og með Bylgju og Elsu og Helgu Bryndísi Magnúsdóttur, konsertpíanista sem sér um undirleik, lofar Jóhann „bassi“ frábærri skemmtun.
Aftur í ferðalög
Jóhann Smári sagði frá því í Víkurfréttum fyrir nokkrum árum að hann væri kominn heim þar sem hann væri þreyttur á ferðalögum sem fylgja óperustarfinu í útlöndum. Hann ætlaði að vinna hér heima í nýrri Hljómahöll og sá fyrir sér mörg verkefni í nýrri Hörpu, nýju óperuhúsi í Kópavogi og í söngskólum og á fleiri stöðum. En hlutirnir fara ekki alltaf eins og maður vill. Bankakreppa og fleira hafði áhrif á þessar fyrirætlanir. Nú er Jóhann Smári aftur kominn í ferðalög.
Bassinn brosir þegar blaðamaður spyr hann út í þróun mála, hvaða flakk sé framundan hjá honum?
„Ég var svo ákveðinn í að vera hér heima að ég keypti mér strax hús við heimkomuna sumarið 2008. En maður ræður ekki alltaf sínum næturstað og þetta hefur ekki gengið alveg eins og ég vildi. Því þurfti ég að stokka spilin upp á nýtt og ég er tilbúinn í ný tækifæri sem hafa komið upp í hendurnar á mér, mjög spennandi,“ sagði Jóhann Smári.
Okkar maður réði sér nýjan umboðsmann og fékk í kjölfarið hlutverk í vor hjá Skosku óperunni. Þar söng hann titilhlutverkið í „Hollendingnum fljúgandi“ og framundan eru fjölmörg fleiri verkefni hjá þeirri óperu í haust og mun hann syngja í 15 sýningum í Glasgow og Edinborg sem „styttan“ í Don Giovanni eftir Mozart. Þá eru fleiri tilboð í farvatninu hjá Skosku óperunni.
Jóhann er nýkominn heim frá Þýskalandi þar sem hann söng í Berlínar Fílharmoníunni 8. Sinfóníu Mahler. Verkið var tekið upp fyrir sjónvarp og hljóðvarpað beint í útvarpi. Mahler sýningin er gríðarlega umfangsmikil. Jóhann stóð á sviðinu með 115 manna hljómsveit á bakvið sig, 450 manna kór og tæplega 50 krökkum í barnakór. „Þetta var magnað. Ég kom á fyrstu æfinguna í risastórri kirkju og sá mörg hundruð manns í sætunum og hugsaði með mér, „eru svona margir áhorfendur á æfingunni? Nei, þá var þetta þessi stóra sveit, um 500 manna kór.“
Á réttum stað og tíma
Jóhann segir að það hafi verið skemmtileg tilviljun hvernig hann fékk þetta verkefni. Hann var kominn í söngprufu hjá konu í Berlín sem er Wagner sérfræðingur og ráðgjafi margra aðila í óperuheiminum. „Ég var rétt að klára að syngja fyrir hana þriðju aríuna og hún mjög ánægð með mig. Svo hringdi síminn og eftir stutt spjall leggur hún símann aðeins frá sér og spyr mig hvort ég hafi áður sungið Mahler áttundu. Ég jánkaði því og var ráðinn þarna á staðnum. Svona er þetta oft í þessu starfi. Þarna var ég á réttum stað á réttum tíma ef svo má segja. Ungstirni frá Þýskalandi átti að syngja hlutverkið og átti að fá að glansa en gafst upp. Í Mahler þarf svakalegt raddsvið, það eru 115 manns í hljómsveitinni á bakvið þig og 500 manna kór. Þetta er ekki verkefni fyrir unga og óreynda söngvara,“ segir Jóhann.
Frá Mahler tónleikunum í Berlínar Fílharmoníunni nýlega.
Jóhann Smári og Bylgja Dís í Eugene Onegin óperunni sem Norðuróp stóð fyrir sumarið 2012 í Hljómahöllinni.