Langar að verða bæklunarlæknir
Afrekskona í námi og íþróttum.
Björk Gunnarsdóttir, nemandi í 10. bekk í Njarðvíkurskóla, mætir sem reglulegur nemandi fjórum sinnum í viku í stærðfræði í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Lauk grunnskólaprófi í 8. bekk
Björk lauk allri stærðfræði á grunnskólastigi í 8. bekk, auk STÆ 103 og 203 á framhaldsskólastigi í 9. bekk og tekur núna STÆ 303. Það telst heldur óvenjulegur ferill en Björk vill ekki gera mikið úr því. „Mér finnst stærðfræði bara heillandi og gaman að geta leyst alls kyns dæmi. Ég væri alveg til í að taka fleiri áfanga á þennan hátt,“ segir hún brosandi. Áhugi hennar á stærðfræði byrjaði þegar hún var í þriðja bekk og henni fannst námsbækurnar skemmtilegar. Námið liggur vel fyrir Björk og hún segist einnig hafa mikinn áhuga á náttúrufræði og ætlar á náttúrufræðibraut í FS þegar hún lýkur grunnskólaprófi. Hún hvetur alla sem hafa áhuga á að taka áfanga í FS samhliða grunnskólanámi að drífa sig. „Ef það gengur vel þá er þetta rosalega sniðugt.“
Körfubolti aðaláhugamálið
„Það voru allir töluvert eldri en ég en það var vel tekið á móti mér svo að það varð ekkert mál,“ segir Björk um veru sína í Fjölbrautaskólanum. Skóladagur hennar byrjar á því að hún mætir fyrst í FS á morgnana og fer svo beint í tíma í Njarðvíkurskóla á eftir. Hún segir að sér líki vel að blanda þessu svona saman þótt hún hafi verið örlítið stressuð fyrst þegar hún kom. Hún segist gefa sér um það bil viku til að búa sig undir próf og vill hafa góðan fyrirvara á þeim. Slíkt skipulag er væntanlega líka nauðsynlegt því Björk er einnig afrekskona í körfubolta og hefur æft þá íþrótt frá því í 2. bekk. Hún keppti með íslenska landsliðinu í körfubolta á móti í Danmörku. Íslensku stelpurnar unnu það mót og var Björk valin í úrvalslið mótsins. Það var í fyrsta sinn sem íslenskt kvennalandslið sigrar á þessu móti. Björk segir gott að æfa íþróttir samhliða námi og að körfubolti sé aðaláhugamál sitt.
Langaði að hjálpa litlu systur
Spurð um framtíðaráform segir Björk sig hafa lengi vel langað að verða dýralæknir. „Eftir að litla systir mín lærbrotnaði fyrir tveimur árum og þurfti að liggja í strekk í átta vikur langaði mig svo að geta hjálpað henni. Ég gæti því vel hugsað mér að verða bæklunarlæknir,“ segir hún. Björk er elst þriggja systkina og segist eiga góða vini bæði úr náminu og íþróttunum. Besta vinkona hennar heitir Snjólaug. „Hún hefur alltaf verið með mér í bekk og var einnig með mér á leikskóla. Og mæður okkar lágu saman á fæðingardeildinni því það eru bara tveir dagar á milli okkar,“ segir Björk hlæjandi að lokum.