Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Langar að vera í sumarbústað um jólin
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 12. desember 2020 kl. 09:25

Langar að vera í sumarbústað um jólin

Monika Krus hefur búið á Íslandi í fimm ár og blandar saman pólskum og íslenskum jólahefðum

Monika Krus segir að hefðirnar hjá henni hafi breyst eftir að hafa búið á Íslandi í fimm ár en hún er með pólsk litlu jól með pólskum mat og jólasveinarnir þrettán gefa í skóinn – en hún væri til í að vera í sumarbústað um jólin og hana vantar betri bíl.

– Ertu byrjuð að kaupa jólagjafir?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Til að vera hreinskilin, nei – en ég er byrjuð að gera lista og mun sennilegast kaupa þær á netinu.“

–Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár?

„Já, þær eru fyrr í ár. Ég fékk dásamlega hjálp við að setja upp ljós í kringum litla húsið mitt. Það var mjög fyndið, því þrjár lágvaxnar manneskjur komu til að hjálpa, þannig að ég þurfti að fá eina hávaxna manneskju til að ná upp á hæsta staðinn. Hann kom auðvitað til að hjálpa okkur.“

– Skreytir þú heimilið mikið?

„Dóttir mín væri mjög hrifin af því og þetta árið dreymir hana um stórt jólatré en húsið mitt er svo lítið þannig að ég var að hugsa hvernig ég geti látið draum hennar rætast, við gætum með ánægju verið með stærra tré þetta ár. Ég vil hóflegt jólaskraut og ég elska mest jólakertastjaka því það gefur huggulegt andrúmsloft. Þegar daginn fer að stytta þá fylli ég yfirleitt húsið mitt af kertum, ég elska það.“

– Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst?

„Ég baka alltaf piparkökur og við erum nú þegar búin að baka þær – þær eru næstum búnar þannig að við verðum að baka aftur, krakkarnir mínir elska að skreyta þær og ég baka ostaköku, eplaköku og súkkulaðiköku með krökkunum.“

– Hvernig sérðu desember fyrir þér í jólastemmningu í ljósi Covid-19?

„Mig langaði að fara til Póllands og hitta fjölskylduna mína, ég hef ekkert ferðast á þessu ári vegna Covid. Ég get ímyndað mér notalega tíma með börnunum og nánustu vinum í snjó og fallega skreyttu húsi með góðan mat, bækur og jólamynd.“

– Eru fastar jólahefðir hjá þér?

„Ég hef búið á Íslandi í fimm ár þannig að hefðirnar hafa breyst. Við sköpum okkar litlu jól með pólskum mat og jólasveinarnir þrettán gefa í skóinn. Á síðasta ári skárum við sjálf út laufabrauð í fyrsta sinn með börnunum sem var yndislegt. Við skreytum alltaf piparkökur, syngjum jólalög á pólsku og íslensku og opnum pakkana að kvöldi aðfangadags. Við förum líka í marga göngutúra og njótum útiveru. Það er líka alltaf frábært að sjá norðurljós.“

– Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir?

„Þegar ég var lítil vorum við venjulega á jóladagskvöld hjá ömmu minni. Fyrstu jólin sem ég man eftir voru þegar ég var kannski fjögurra, fimm ára, ég á mjög stóra fjölskyldu þannig að það var margt fólk við borðið og einnig mörg börn. Pabbi minn spilaði á gítar og við sungum öll jólalög. Það var alltaf gaman og spennandi því allir þurftu að borða matinn áður en það mátti opna gjafirnar. Ég man ennþá eftir þessari tilfinningu. Eitt okkar útdeildi gjöfunum til allra áður en við opnuðum þær. Þetta var frábær dagur.“

– Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?

„Nei.“

– Eftirminnilegasta jólagjöfin?

„Þegar fjölskylda mín frá Póllandi kom til Íslands um jólin. Við vorum tólf manns í 60 fm húsi. Við hjálpuðumst til við undirbúninginn, allir elduðu eitthvað og við sungum saman og pabbi minn spilaði á gítar. Ég held að það hafi verið bestu jólin mín.“

– Er eitthvað sérstakt sem þig langar í jólagjöf?

„Mig langar að fara í sumarbústað, það gæti verið fullkomið að hafa bústað frá 25. eða 26. desember til 31. desember. Nýr bíll væri samt enn betra, minn er gamall og skemmdur. Það fyndna er að ég er ekki að grínast.“

– Hvað verður í matinn hjá þér á aðfangadagskvöld?

„Við eldum alltaf það sem okkur finnst best, kjúklingasúpu, Pierogi. Ég borða ekki kjöt þannig að ég borða íslenskan fisk og grænmeti – og auðvitað kökur, kakó fyrir krakkana og „ceremonial“ kakó fyrir mig frá Equador, Perú eða Sierra Leone (www.monia.is).“