Langar að taka sjálfur við Óskarnum
- Var í teymi sem gerði myndbrellur í myndinni The Gravity.
Bjarni Róbert Bragason er Njarðvíkingur og bjó í Reykjanesbæ þar til hann flutti til London í lok ársins 2009. Hann starfar sem myndbrellumeistari (e. compositor) og segir í viðtali við Víkurfréttir frá starfi sínu, reynslu og Óskarsverðlaunum sem hann á hlut í fyrir myndina The Gravity.
Lærði grunninn hjá Latabæ
„Besta leiðin til að lýsa starfinu mínu er að ég sé til þess að leikarar, sem teknir eru upp í myndveri með ekkert annað en grænt tjald í bakgrunni, virðast hafa verið teknir upp t.d. í öðrum heimi eða öðru landslagi. Einnig búa myndbrellumeistarar til galdra og aðrar brellur, láta Súperman fljúga og annað sem er í eðli sínu ekki hægt að taka upp,“ segir Bjarni. Spurður um hvenær áhugi hans á myndbrellum kviknaði segist Bjarni muna eftir að hafa séð kvikmyndina Dragonheart, frá árinu 1996, þar sem Sean Connery talaði fyrir tölvuteiknaðan dreka. „Flestir duttu í að fá áhuga á svona eftir að hafa séð Jurassic Park eða Terminator 2 en ég hreifst af því hvað það væri hægt að blása miklu lífi og tilfinningu í eitthvað sem er ekki til.“ Boltinn fór að rúlla eftir að Bjarni hafði leikið sér að því að gera þrívíddarmódel og annað í frístundum heima samhliða framhaldsskólanámi. Nítján ára, fyrir 10 árum síðan, hætti hann svo í framhaldsskóla því kunnátta hans kom honum inn um dyrnar hjá Latabæ þegar þar vantaði mannskap í myndbrelludeildinni. „Þeir kenndu mér grunninn að því sem ég geri í dag,“ segir Bjarni.
Ævintýrið í kringum The Gravity
Besta við starfið segir Bjarni vera að geta starfað við áhugamál sitt og fengið laun fyrir. „Almennt er mjög skemmtilegt fólk í þessum bransa og það er mjög gaman og verðugt að sjá nafnið sitt í stórmyndunum. Vinnutíminn er hins vegar mjög langur og starfsöryggi oft lítið þannig að þetta á best við fólk sem getur fært sig á milli landa eins og ekkert sé.“ Eftir að Latibær hætti framleiðslu á þáttunum um 2008 komst Bjarni í samband við Daða Einarsson, sem einnig vann að myndinni The Gravity. „Daði hafði þá stofnað útibú Framestores á Íslandi (sem kallast RVX í dag) og ég byrjaði að vinna með honum í Reykjavík. Seinna fór ég út til Framestore í London að vinna við Clash of the Titans og eftir nokkrar myndir fór ég inn í teymið sem gerði The Gravity,“ segir Bjarni.
Atriði með Söndru Bullock og George Clooney
Hann var það sem kallað er „2d sequence Lead“ og sá þá um 5-6 manna teymi sem hélt utan um samsetningu myndbrellna úr hluta af byrjun myndarinnar. Í fyrirtækinu í kringum myndina störfuðu um 400 manns og vinnsla Bjarna hluta af myndinni tók eitt ár, svo að hann eignaðist fjölda vina. „Stór hópur fólks kemur að gerð sömu hluta myndarinnar en hlutinn sem ég var með var um 6 mínútur af myndinni.“ Hann segir tökurnar aðeins hafa verið tvær og því gríðarlega erfitt en spennandi verkefni. Þetta hafði aldrei verið gert áður og þess vegna hefði verið gaman að vera hluti af þessu.
„Minn hluti byrjar þegar þau uppgötva að það er eitthvað að og allt fer í bál og brand og Sandra Bullock kastast út í geim og endar svo þegar George Clooney finnur hana aftur.“ Bjarni segir vinnsluna hafa verið allt frá því að setja saman margar tökur af Söndru og blanda saman svo úr verði ein löng taka án þess að áhorfandinn taki eftir því, setja andardráttinn á glerið, allar rispur, setja inn sólina og hanna útlit hennar, litaleiðréttingar og fleira. „Okkar verk er að láta þetta líta út fyrir að hafa verið tekið upp í tökuvél með alla sína galla frekar en þetta fullkomna þrívíddarútlit,“ segir Bjarni.
Óskarsverðlaun eins og Ólympíugull
Spurður um hvernig tilfinningin hafi verið að vera hluti af teymi sem vinnur Óskarsverðlaun, segir Bjarni: „Það er náttúrulega bara það stærsta sem getur komið fyrir. Það er engin meiri viðurkenning en þetta fyrir starfið þitt. Þetta er í raun bara Ólympíugullið okkar.“ Bjarni situr ekki auðum höndum og mikið er í pípunum. „Ég var að klára Edge of Tomorrow með Tom Cruise og er núna byrjaður í Guardians of the Galaxy sem ég verð upptekinn af í sumar. Ég er fastráðinn hjá Framestore svo að í augnablikinu þá held ég bara áfram hjá þeim í London. Stærsti draumurinn er að fá að gera persónulegt stórmyndarverkefni eða taka við Óskarnum sjálfur einn daginn,“ segir Bjarni spenntur að lokum.