Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Langar að kafa ofan í stöðu Reykjanesbæjar
Föstudagur 31. desember 2010 kl. 12:02

Langar að kafa ofan í stöðu Reykjanesbæjar

„Það gífurlega atvinnuleysi sem er þessa dagana á Suðurnesjum hlýtur að standa upp úr fréttum ársins 2010. Slæm staða Reykjanesbæjar er í öðru sætinu og það liggur í augum uppi að næstu ár verða erfið hjá Suðurnesjamönnum. Sem blaðamaður hefði ég áhuga á því að skoða hvað gerðist sem varð til þess að staða bæjarins er jafn slæm og raun ber vitni. Blaðamenn eiga að kafa ofan í þessi mál og reyna að finna skýringar, aðrar en þær sem spunameistararnir gefa,“ segir Jóhannes Kr. Kristjánsson, sem þekktastur er fyrir fréttaskýringaþáttinn Kompás sem var á Stöð 2. Jóhannes var blaðamaður á Víkurfréttum á árunum 2002 til 2005.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það eru nokkrar fréttir sem ég vann á Víkurfréttum sem eru mér minnisstæðar,“ segir Jóhannes þegar hann er spurður um árin á Víkurfréttum.

„Þar trónir efst fréttin um brottför Varnarliðsins, en Víkurfréttir „skúbbuðu“ því máli og var fréttin með fyrirsögninni Vopnin kvödd þann 24. október 2004. Ég var nokkrar vikur að fá fréttina staðfesta og það gekk loks með aðstoð heimildarmanna og bandarískra hermanna sem höfðu verið á Íslandi. Fréttin vakti mikla athygli og var tekin upp af öðrum fjölmiðlum.

Ég hef mikinn áhuga á sjávarútvegsmálum og lagði mikla vinnu í að reikna út kvóta sem hafði verið seldur frá Sandgerði. Við þá útreikninga kom í ljós að 90 prósent af kvóta Sandgerðinga hafði horfið úr plássinu fimm árin á undan. Sömu sögu var að segja úr flestum byggðakjörnum á Suðurnesjum.
Ég fjallaði einnig ítarlega um stálpípuverksmiðjuna sem bandaríska fyrirtækið International Pipe and tube ætlaði að reisa í Helguvík. Það kom fljótt í ljós að fyrirtækið hafði enga burði til að reisa verksmiðjuna og gekk illa að fjármagna verkefnið. Verksmiðjan hefur ekki enn risið.
Ég vann nokkrar fréttaskýringar fyrir Víkurfréttir og meðal annars fjallaði ég um fátækt í Reykjanesbæ, fíkniefnaheiminn, aðstæður geðsjúkra svo eitthvað sé nefnt.

Það voru nokkur viðtöl sem ég tók fyrir Víkurfréttir sem voru mjög átakamikil. Eitt þeirra var við Ómar Jóhannsson revíuhöfund af Suðurnesjum sem greindist með krabbamein árið 2003 og lést ári síðar. Viðtalið tók ég við Ómar nokkrum dögum áður en hann lést á heimili hans í Reykjavík. Það var átakanleg stund að sitja með Ómari og fjölskyldu hans þar sem hann ræddi opinskátt um veikindi sín og dauðann. Jafnvel á þessari stundu var hann viss um að hann myndi sigra krabbameinið. Listinn er langur yfir áhugaverð og erfið viðtöl sem ég tók á þessum árum.

Sú frétt sem mér fannst hvað erfiðast að vinna var um Birgittu Hrönn, litla stúlku sem fæddist andvana á Landspítalanum í Reykjavík. Karen Hilmarsdóttir móðir Birgittu var flutt til Reykjavíkur með sjúkrabíl þar sem skurðstofur HSS voru ekki mannaðar sólarhringsvöktum. Ég tók viðtal við Kareni og eiginmann hennar, Einar Árnason um þessa erfiðu lífsreynslu þeirra. Saga þeirra vakti mikil viðbrögð á Suðurnesjum og víðar um land en hún birtist í Víkurfréttum í febrúar 2005“.