Langar að innleiða fjölbreyttari fög sem vekja áhuga nemenda
„Það þarf að horfa á einstaklingana innan heildarinnar og reyna eftir bestu getu að styrkja hvern og einn og virkja þannig áhuga nemandans fyrir náminu,“ segir Eva Björk Sveinsdóttir sem mun taka við starfi sem skólastjóri í Gerðaskóla í ágúst næstkomandi en Eva hefur verið starfandi aðstoðarskólastjóri undanfarið skólaár.
Eva er gift Halldóri Magnússyni fasteignasala á Stuðlabergi og eiga þau þrjár dætur. Hún útskrifaðist sem íþróttakennari frá Íþróttakennaraskólanum á Laugavatni 1995 og stefnir á að ljúka mastersnámi á vormánuðum í Forystu og stjórnun frá Bifröst.
Eva hefur ætíð unnið við kennslu lengst af í 19 ár í Myllubakkaskóla en einnig í eitt og hálft ár þegar hún starfaði sem leikskólakennari á Heiðarseli. Sú reynsla var henni mikilvæg og jók skilning hennar á því mikla og góða starfi sem fram fer á leikskólum.
Hefur brennandi áhuga á skólamálum „Ég ætlaði nú aldrei að vera kennari og eftir stúdentspróf vissi ég ekkert hvaða leið ég ætlaði en sótti um í Kennaraháskólanum og Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni fékk inngöngu í báða skóla og ákvað að fara í Íþróttakennaraskólann, en það lá beinast við þar sem ég stundaði fótbolta, handbolta og körfubolta af kappi í þá daga“ segir Eva.
Það er augljóst að Eva hefur mikinn og brennandi áhuga fyrir því sem hún gerir og talar hún um þær hröðu breytingar sem eru að verða á menntun og í menntakerfinu í heild og þá sérstaklega að ekki þurfi allir nemendur að fara sömu leiðina innan Grunnskólans. Hana langar, á komandi tímum að innleiða fjölbreyttari fög inn í skólann, þar sem nemendurnir hafi meira val um fög sem vekja áhuga þeirra og efli styrkleika.
Nemendur tilheyra mörgum þjóðarbrotum
Nemendur Gerðaskóla eru af mörgum þjóðernum og eru um 20% nemenda sem hafa annað tungumál en íslensku á heimili sínu.
„Yfir höfuð gengur þessum börnum vel að fóta sig og aðlagast skólanum, þau fá mikið svigrúm og vel er tekið á móti þeim, starfsfólk skólans er greinilega vant því að taka á móti börnum sem eru að erlendu bergi brotin“ segir Eva.
Í Gerðaskóla er starfandi kennari sem hefur íslensku sem annað tungumál og hefur hann kennt börnunum í einkatímum, mismikið þó eftir þörfum hvers og eins. Einnig hefur verið komið á fót þróunarverkefni þar sem pólskir drengir úr 8. bekk koma inn í 1. bekk og hjálpa þar yngstu samlöndum sínum við lærdóminn, hefur það verkefni tekist mjög vel til.
Skólastarf í sameinuðu sveitarfélagi
Nú liggur það fyrir að Garður og Sandgerði munu sameinast þann 10. júní næstkomandi hvernig leggst sú sameining í þig og sérðu einhverja breytinga á skólastarfinu? „Ég er spennt fyrir sameiningu sveitafélaganna og sé fullt af nýjum tækifærum sem geta skapast hvað skólastarfið varðar og hafa skólarnir nú þegar skipulagt sameiginlegan starfsdag með haustinu,“ segir Eva. Það er því óhætt að segja að það séu spennandi tímar framundan fyrir nemendur og starfsfólk Gerðaskóla.