Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Langar að faðma skólann
Kristinn Sveinn Kristinsson, Kolbrún Marelsdóttir og Elva Dögg Sigurðardóttir.
Mánudagur 17. febrúar 2014 kl. 16:47

Langar að faðma skólann

„Geggjaðir“ þemadagar FS í vikunni.

 

Þemadagar FS verða haldnir 20. og 21. febrúar og blaðamaður hitti þau sem hafa staðið að undirbúningi síðan í haust, þau Elvu Dögg Sigurðardóttur, Kolbrúnu Marelsdóttur og Kristin Svein Kristinsson. „Kolla er búin að vera dugleg að skipuleggja þetta,“ segir Kristinn Sveinn en Kolbrún er fljót að bæta við: „Þau eru líka búin að vera mjög dugleg. Frábært að fá unga fólkið með.“ Elva Dögg bætir við: „Við erum í svo góðum tengslum við jafnaldra okkar og vitum hvað þeir hafa áhuga á.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

50 fjölbreytt námskeið

Um 50 námskeið verða í boði í ár og nemendur fá skráð að þau hafi tekið þátt í tveimur námskeiðum þennan dag. Námskeiðin eru af ýmsum toga, s.s. að baka bollakökur, fluguhnýtingar, íþróttir, hugleiðsla, landlæknir verður með fyrirlestur um geðheilsu, suðunámskeið, sushigerð, veggmálun, vöfflugerð, Dale Carnegie, Sigga Dögg með kynfræðslu, Sigga Kling kemur, námskeið verður í sjálfbærni, smíðaðir verða bekkir til að setja á gangana í skólanum og kaffihús verður á staðnum. Þeir sem vilja nýta tímann í að læra geta skráð sig á þar til gert námskeið og lært.


Geðheilbrigði þemað í ár

„Á föstudeginum verður uppskeruhátíð þar sem við stefnum á að vera með stuttmynd með afrakstri frá þemadögunum. Elva Dögg Gunnarsdóttir verður með uppistand, sýnt verður atriði úr söngleiknum Dirty dancing og haldinn dansleikur. Einnig munum við bjóða upp á skúffuköku og mjólk,“ segir Kolbrún. Þemað í ár er Geggjaðir dagar og vegna þess að FS er heilsueflandi skóli er áherslan þessa önn á geðheilbrigði. „Allir eru hvattir til þess að gera það sem þeim finnst skemmtilegt og það sem þeim líður vel af. Við ætlum ekki að hafa skráningarkerfi því hver og einn á að finna með sjálfum sér að það sé skemmtilegt að mæta í skólann. Skólastarfið verður brotið upp. Okkur langar líka að gera eitthvað táknrænt eins og að fá stóran hóp til að faðma skólann eða eitthvað. Það kemur í ljós,“ bætir Kolbrún hlæjandi við.


Kynnast kennurum á nýjan hátt

Það sem verður öðruvísi núna en áður á þemadögum er að dagarnir verða bara tveir og nærsamfélagið á Suðurnesjum verður nýtt eins og hægt er. Líkamsræktarstöðvar verða með tilboð og námskeið og verslanirnar Krummaskuð, Skóbúðin, Kóda, Gallerí og K-sport ætla að vera með 20% „geggjaðan“ afslátt. Þá ætlar Langbest að selja pitsur á 1000 kall sem annars myndu kostar 1700 og 88 húsið kemur inn í þetta líka. Búið er að bjóða eldri borgurum að koma og skoða skólann og skólastarfið. Þá eru foreldrar nemenda einnig hjartanlega velkomnir að sjá hvað er um að vera. „Skólinn verður iðandi af lífi, tónlist og skemmtilegheitum. Kennarar við skólann hafa verið sérstaklega móttækilegir með að halda námskeið. Sumir fara langt út fyrir sinn þægindahring og kenna eitthvað sem þeir hafa ekki gert áður. Frábært fyrir nemendur að kynnast kennurum sínum á þennan hátt,“ segir Kolbrún að lokum. Elva Dögg og Kristinn Sveinn taka undir það. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu skólans, www.fss.is.

 
VF/Olga Björt