Mannlíf

Langaði að prófa og það hefur ekki verið aftur snúið
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 10. nóvember 2023 kl. 17:30

Langaði að prófa og það hefur ekki verið aftur snúið

Karlakór Keflavíkur fagnar sjötugsafmæli með stórtónleikum í Stapa þann 11. nóvember nk. Páll Bj Hilmarsson byrjaði að starfa með Karlakór Keflavíkur haustið 1992. Hann segir löngunina til að syngja hafa dregið sig í kórinn.

„Ég þekkti fullt af mönnum sem voru í kórnum og var búinn að fá hvatningu. Ég hefði átt að vera byrjaður fyrir löngu síðan. Maður sér það eftir á. Mig langaði að prófa og það hefur ekki verið aftur snúið.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þú sérð ekki eftir þessu?

„Nei og hef ekki misst af tónleikum í þrjátíu og þrjú ár.“

Hvað er það við að starfa og syngja í kór?

„Það er félagsskapurinn. Hann er mjög góður. Það er svo skrítið með það að ef þú ert í kór eða syngur. Maður getur verið hundveikur þegar maður mætir á æfingar en þegar þú ert búinn að taka hressilega á því á æfingu ertu orðinn góður. Ég stóð mig oft af þessu. Svo er það félagsskapurinn. Einnig vil ég nefna hljóminn, þegar það er kominn massífur hljómur í kórinn, þá er það algjör snilld.“

Þið eruð engin unglömb í þessum kór.

„Ekki allir, nei. Það eru nokkrir að verða gamlir. Það eru sumir búnir að vera hér lengi, jafnvel fjörtíu ár eða lengur.“

Hvað finnst þér einkenna kórinn?

„Ég myndi segja að það væri léttleiki. Við erum búnir að vera mjög blandaðir og tökum öll þessi hefðbundnu karlakóralög sem allir þessir stóru kórar eru að taka. Svo erum við með þá sérstöðu hér að við erum með poppið, Suðurnesjapoppið, og höfum verið að taka það inn. Við erum núna með lög sem Valdimar hefur flutt og fleiri.“

Páll nefnir það að Karlakór Keflavíkur hefur verið duglegur að gefa út tónlist. Fyrsta hljómplatan kom út árið 1981. Árið 1996 kom út hljómdiskurinn Suðurnesjamenn. Á 50 ára afmæli kórsins árið 2003 var gefið út Tónaberg og svo var aftur gefinn út diskur árið 2008. Þá var gefinn út DVD-diskur með stóra Kötlumótinu sem haldið var í Reykjanesbæ þar sem 500 kórmenn komu saman og sungu.

Er komið fiðrildi í magann fyrir afmælistónleikana?

„Já, það er þannig. Við erum að skrifa upp söguna og fletta í gegnum albúmum. Við erum að setja saman skemmtilega sýningu þar sem farið verður í gegnum söguna frá degi eitt, alla búningana og allt það sem komið hefur upp á.“

— Þetta hefur verið litskrúðugur kór?

„Já, hann hefur verið í mörgum búningum, svörtum, bláum, grænum og rauðum.“

— Áttu þinn uppáhalds?

„Já, það er græni liturinn. Hann var helvíti flottur“.