Landsmót Samtaka íslenskra skólalúðrasveita
– haldið í Reykjanesbæ um helgina
Helgina 23. – 25. janúar n.k. verður Landsmót Samtaka íslenskra skólalúðrasveita haldið í Reykjanesbæ. Það er Tónlistarskóli Reykjanesbæjar sem stendur að mótinu í samstarfi við Samtök íslenskra skólalúðrasveita, SÍSL, en þetta mót er ætlað fyrir elstu deildir skólalúðrasveita landsins. Alls taka skólalúðrasveitir frá 12 stöðum á landinu þátt í mótinu, með alls um 220 hljóðfæraleikurum.
Öll dagskrá landsmótsins mun fara fram í Hljómahöll, þ.e. í Tónlistarskólanum og sölum Hljómahallar, sem er mikil hagræðing varðandi nýtingu á tíma og eykur samveru nemenda og kennara, sem er mikilvægt.
Haldnir verða tvennir mótstónleikar. Þeir fyrri verða í tengslum við mótssetninguna, föstudaginn 23. janúar kl. 21.30 í Stapa, Hljómahöll. Þar munu koma fram Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Skólalúðrasveit Austurbæjar í Reykjavík og Skólahljómsveit Kópavogs. Seinni mótstónleikarnir verða í Stapa, Hljómahöll, sunnudaginn 25. janúar kl.14.00. Þar koma fram smærri hópar úr lúðrasveitunum og flytja þá tónlist sem unnið hefur verið með á landsmótinu. Aðgangur er ókeypis á báða tónleikana og allir velkomnir.
Þetta landsmót verður með nýju sniði. Lúðrasveitirnar æfa ekki sameiginlega eins og fyrirkomulagið hefur verið undanfarin ár, heldur verður unnið með nemendur í smærri hópum eftir hljóðfæraflokkum og lögð áhersla á kammertónlist, námskeið og fyrirlestra. Það er því verið að fara nýjar leiðir að þessu sinni.
Fyrir utan þá kennara sem tengjast lúðrasveitunum beint, hafa verið fengnir nokkrir öflugir gestakennarar og fyrirlesarar, þeir Ingi Garðar Erlendsson tónskáld og tónlistarfrömuður, Jón Björgvinsson slagverksleikari, Samúel Jón Samúelsson, básúnuleikari og latin-tónlistarmaður og Veigar Margeirsson, kvikmyndatónskáld. Einnig munu sérhæfðir hljóðfæraviðgerðarmenn fara með nemendum yfir þau atriði sem helst þarf að hugsa um og passa upp á til að lágmarka bilanir og auka endingu hljóðfæranna.