Landsmót lúðrasveita í Reykjanesbæ
Dagana 15. til 17. febrúar n.k. standa Samtök íslenskra skólalúðrasveita, SÍSL, og Tónlistarskóli Reykjanesbæjar fyrir landsmóti skólalúðrasveita. Þetta mót er ætlað eldri skólalúðrasveitum og eru þátttakendur liðlega 300 talsins, flestir á aldrinum 14 – 20 ára og koma alls staðar að af landinu.
Hópnum verður skipt upp í 3 stórar lúðrasveitir, auk þess sem slagverksnemendur æfa sérstaklega undir stjórn hins heimsfræga bandaríska slagverksleikara Thom Hannum, en hann kemur gagngert hingað til lands til að kenna og æfa slagverksnemendur á landsmótinu. Thom, sem er kennari við University of Massachusetts, er m.a. þekktur fyrir aðild sína að hinni mögnuðu sýningu “Blast-show” en hann hefur sérhæft sig í þjálfun göngu-slagverkssveita sem þjálfaðar eru sem sérstök sýningaratriði, m.a. á tónleikum og íþróttaleikjum og hefur verið fenginn til að halda námskeið víða um heim, m.a. í Kanada, Asíu og víða í Evrópu.
Stjórnendur hljómsveitanna koma einnig gagngert frá Bandaríkjunum til að æfa hljómsveitirnar og eru þeir allir þekktir lúðrasveitastjórnendur þar í landi.
Mótsgestir munu gista í Holtaskóla, en æfingar fara fram í A-sal Íþróttahússins við Sunnubraut, í sal og íþróttasal Myllubakkaskóla og í sal Tónlistarskólans við Austurgötu.
Mótssetning fer fram við hátíðlega athöfn í Íþróttahúsinu við Sunnubraut föstudagskvöldið 15. febrúar kl. 21.00. Landsmótstónleikarnir verða svo einnig í Íþróttahúsinu, sunnudaginn 17. febrúar kl. 12.30 en að þeim loknum fara fram mótsslit.
Tónleikarnir verða einkar glæsilegir, sérstaklega í ljósi þess að um óvenju stórar og vel skipaðar lúðrasveitir er að ræða, miðað við það sem þekkist hérlendis. Auk þess mun sérstök slagverkshljómsveit skipuð slagverksnemendum lúðrasveitanna, koma fram undir stjórn Thom Hannum.
Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir.
Fréttatilkynning
Mynd:Thom Hannum, slagverksleikari.