Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Þriðjudagur 30. júlí 2002 kl. 10:04

Landsliðið í lagasmíðum situr sveitt við að semja Ljósanæturlag

Sönglagakeppni verður haldin í tilefni af menningar-og fjölskylduhátíðar Reykjanesbæjar 4.- 8. september “Ljósanótt 2002” sem nú er haldin í þriðja sinn. Á síðustu Ljósanótt mættu um 20 þúsund manns allsstaðar af landinu og má búast við svipuðum vinsældum þetta árið.

Undirbúningsnefnd Ljósanætur ákvað að þessu tilefni að endurvekja tónlistarvögguna í Bítlabænum og haldin verður sönglagakeppni sem hefur fengið nafnið LJÓSALAGIÐ 2002, í endurnýjuðum Stapa þann 16. ágúst nk., þar sem ekkert verður til sparað í mat og drykk. Mikill áhugi er fyrir þessari sönglagakeppni og heyrst hefur að landsliðið í lagasmíðum sitji sveitt um þessar mundir við að semja íslensk dægurlög, og auðvitað margir fleiri sem eru að stíga sín fyrstu spor á þessu sviði.
Mjög verður vandað til þessarar keppni og eru samningar við Skjá Einn á lokastigi um beina sjónvarpsútsendingu frá keppninni í Stapa. Má búast við miklu áhorfi því Skjár Einn er í ólæstri dagskrá eins og allir vita og Íslendingar hafa yfirleitt mikinn áhuga á svona keppnum.

Fyrirkomulag keppninnar er þannig að höfundar senda inn lag undir dulnefni. Hinn frábæri Jón Ólafsson tónlistarmaður sér um útsetningar og hljómsveitarsjórn. Hljómsveitina skipa; Haraldur Þorsteinsson kenndur við Bítlavinafélagið, á bassa, Ólafur Hólm kenndur við Nýdönsk, á trommur, Sigurður Magnússon Magnúsar Eiríkssonar á gítar og
Matthías Stefánsson úr hljómsveit Páls Rósinkrans á gítar og fiðlu.
Söngvarar kvöldsins eru; Andrea Gylfadóttir söngkona Todmobil, Margrét Eir söngkona hljómsveitarinnar Meir, Einar Ágúst Eurovisionfari og söngvari Skítamórals og svo hinn eini sanni Páll Rósinkrans sem óþarfi er að kynna nánar. Kynnar kvöldsins eru Anna Björk útvarpskona og Björn Jörundur sjónvarpsmaður og söngvari í Nýdönsk.

Dómnefnd kvöldsins skipa fyrir hönd Reykjanesbæjar;
Árni Sigfússon bæjarstjóri og formaður dómnefndar, Steinþór Jónsson formaður Ljósanæturnefndar og Valgerður Guðmundsdóttir menningarmálafulltrúi Reykjanesbæjar. Aðrir í dómnefnd eru;
Guðmundur Jónsson gítarleikari Sálarinnar, Bjarni Arason söngvari og útvarpsmaður, Halldór Jón Jóhannesson framkvæmdastjóri keppninnar og
Árni Þór Vigfússon sjónvarpsstjóri Skjás eins.

Vegleg peningaverðlaun verða fyrir fyrstu þrjú verðlaunasætin frá Ljósanefnd Reykjanesbæjar, helgarferð fyrir tvo frá Flugleiðum hvort sem er til Evrópu eða Ameríku fyrir fyrsta sætið ásamt gistingu frá Hótel Keflavík fyrir brottför og glæsilegur farandverðlaunagripur sem Íris Jónsdóttir listakona úr Reykjanesbæ hefur hannað.
Einnig má geta þess að gefin verður út geisladiskur með þeim lögum sem komast í úrslit þessarar keppni.
Eins og sést á þessari upptalningu verður ekkert til sparað til að gera þessa keppni sem besta á landsvísu og hvetjum við Suðurnesjamenn að fjölmenna á þessa frábæru skemmtun.

Fyrir hönd undirbúningsnefndar Ljósalagsins 2002
Sigríður Gunnarsdóttir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024