Landslið listamanna heiðrar minningu Rúnars Júlíussonar
Nú er orðið uppselt á minningartónleika um Rúnar Júlíusson sem fram fara í Laugardalshöll þann 2. maí nk. Forsala aðgöngumiða á aukatónleika, sem verða haldnir kl. 16 þann 2. maí, hefst á morgun kl. 10 á midi.is. Miðaverð á aukatónleikana verður 1000 krónum lægra en á aðaltónleikana. Dagskráin verður hins vegar sú sama.
Það eru synir Rúnars heitins, þeir Baldur og Júlíus, sem hafa veg og vanda af tónleikunum og hafa þeir haft í mörg horn að líta síðustu daga og vikur við skipulagninu á þessum fyrsta risa-tónlistarviðburði ársins hér á landi. Júlíus segir að aðeins verði um þessa tvenna tónleika að ræða, þar sem margt af listafólkinu þurfi að snúa til annarra verka. Þá liggur það fyrir að tónleikarnir verða ekki teknir upp fyrir sjónvarp eða útgáfu á DVD. Það er því skyldumæting á þennan einstaka tónlistarviðburð.
Á minningartónleikunum koma saman allir samstarfsmenn Rúnars Júlíussonar í gegnum áratugina. Þess ber þó að geta að Bubbi Morthens hefur boðað forföll eins og Hjálmar og Baggalútur. Þegar allt er talið munu um 80 manns stíga á svið og dagskráin verður mjög flott að sögn þeirra bræðra. Óhætt er að segja að það komist færri að en vilja á sviðinu. Þá verða listamenn fluttir inn frá þremur löndum. Eiríkur Hauksson kemur frá Noregi og flytur GCD syrpu, Helgi Björnsson kemur frá Þýskalandi og Shady Owens frá Bretlandi. Hún mun syngja með Hljómum en gert er ráð fyrir því að Hljómar slái sinn lokatón á minningartónleikunum.
Eins og fram hefur komið er það sannkallað landslið tónlistarmanna sem mun koma fram á tónleiknum og margar af goðsagnakenndustu hljómsveitum landsins ásamt ættingjum Rúnars og Karlakór Keflavíkur.
Staðfest er að eftirfarandi listamenn og hljómsveitir koma fram: Áhöfnin á Halastjörnunni, Bjartmar Guðlaugs, Björgvin Halldórsson, Buff (Lónlí blú bojs syrpa)
Deep Jimi and the Zep Creams, Eiríkur Hauksson (GCD syrpa), Hjaltalín, Meðlimir Hljóma, Jóhann Helgason, Karlakór Keflavíkur, KK, Lifun, Páll Óskar, Unun & Helgi Björns, Sálin hans Jóns míns, Stuðmenn, Meðlimir Trúbrots & Krummi.
Að sögn þeirra Baldurs og Júlíusar má fólk eiga von á stórkostlegri skemmtidagskrá. Rétt er að árétta að tónlistarfólkið er ekki endilega að fara að flytja tónlist eftir Rúnar, heldur eru hér á ferðinni samstarfsfólk og samferðarmenn hans á tónlistarsviðinu. Rúnar samdi og flutti yfir 400 lög á sínum ferli og segir Baldur að Rúnar hafi gefið út alla sína tónlist og Geimsteinn liggi ekki á óútgefinni tónlist eftir kappann. Fyrir fáeinum dögum var gefið út á Tónlist.is lagið Ég þrái að lifa í flutningi Rúnars Júlíussonar. Höfundur lags og texta er Elmar Sindri Eiríksson frá Dalvík en Rúnar tók upp sönginn þegar hann var í heimsókn á Dalvík á Fiskideginum á síðasta ári. Þeir bræður, Baldur og Júlíus, telja að mestu líkurnar á því að óútgefið efni liggi í skúffum hjá minni spámönnum sem hafa fengið Rúnar til að syngja lag og lag, en Rúnar Júlíusson átti oft erfitt með að segja nei við fólk og tók að sér hin ýmsu verkefni á tónlistarsviðinu. Var jafnvel farinn að syngja í garð- og grillveislum eftir að hafa verið stoppaður á götu.
Um minningartónleikana er óhætt að fullyrða að hér sé á ferðinni eitt magnaðasta samansafn listamanna sem komið hefur fram á einum tónleikum hérlendis. Og samt er ekki loku fyrir það skotið að fleiri bætist í hópinn áður en yfir lýkur. Sérstakir gestir eru Baldur og Júlíus synir Rúnars, María Baldursdóttir og barnabörn Rúnars. Búast má við stórfjölskyldunni á sviðið í eftirminnilegu atriði.
Björn G. Björnsson sér um handrit og sviðssetningu og tónlistarstjórn er í höndum Þóris Baldurssonar. Hér er á ferðinni vönustu menn landsins enda hafa þeir séð um stærstu og best heppnuðu tónleika síðustu ára; má þar nefna minningartónleikana um Vilhjálm Vilhjálmsson og Jólagesti Björgvins tvö ár í röð.
Auk þess að smala saman þessum einstaklega glæsilega hóp listamanna, er stefnt að því að nota tæknina óspart til að fara yfir feril og ævi Rúnars, ekki síst myndvinnslu og gamalt efni úr hirslum Rúnars. Hver veit; ef til vill tekur Rúnar lagið með hjálp tækninnar ásamt einhverjum af ofantöldum listamönnum.
Hluti af hverjum seldum miða rennur í Minningarsjóð Rúnars Júlíussonar. Aðstandendur tónleikanna eru Geimsteinn og fjölskylda Rúnars og framkvæmdaaðilinn er Bravó.