Landsfrægur sjónvarpshundur í haldi lögreglu
Hundurinn Tómas er landsfræg sjónvarpsstjarna sem býr í Reykjanesbæ. Hann er helst frægur fyrir það að fara með hlutverk í þáttunum Andri og flandri á RÚV.
Komið var með Tómas á lögreglustöðina í Keflavík í gær og þar var sagt frá því að hann hafi strokið heiman frá sér en hann býr á Berginu í Keflavík. Lögreglan hafði gaman af heimsókn Tómasar og leyfði honum m.a. að prófa lögreglubíl.
Eigandi Tómasar, Ólöf Elíasdóttir, sótti Tómas fljótlega. Hann hafði ekki strokið að heiman. Hann hafi bara farið út til að pissa og verið að merkja ljósastaura á Berginu til að halda öðrum bæjarrökkum frá sínu yfirráðasvæði. Það var í þessari merkingarferð sem góðviljaður samborgari Tómasar „pikkaði kauða upp og kom honum til lögreglunnar,“ eins og segir á fésbókarsíðu lögreglunnar. Ólöf sagði í athugasemd á lögreglusíðunni að framvegis verði haft nánara auga með Tómasi.
Ólöf Elíasdóttir með Tómas „á Flandri“ við heimili sitt á dögunum. VF-mynd: Eyþór Sæmundsson