Landsbyggðartúttan Una Steins
Una Steinsdóttir er kraftmikil Keflavíkurmær og hefur látið að sér kveða í bankageiranum og unnið hjá Íslandsbanka í þrjátíu ár.
Una Steinsdóttir er kraftmikil Keflavíkurmær og hefur látið að sér kveða í bankageiranum og unnið hjá Íslandsbanka í þrjátíu ár. Hún varð yngsti bankaútibússtjóri Íslandsbanka aðeins þrítug og hefur starfað hjá bankanum frá því hún var í framhaldsskóla. „Ég er landsbyggðartútta og held uppi merkjum landsbyggðarinnar eins mikið og ég get,“ segir hún stolt þegar Víkurfréttamenn heimsóttu hana ekki alls fyrir löngu. Hún var viðmælandi Sjónvarps Víkurfrétta í þáttaröðinni Suður með sjó en þátturinn er aðgengilegur á vf.is.
Una er dóttir hjónanna Steins Erlingssonar og Hildar Guðmundsdóttur og hún á systurina Dagnýju og átti bræðurna Guðmund og Einar en þeir eru báðir látnir. Sorgin hefur því barið dyra hjá fjölskyldunni og við ræðum það við Unu síðar í viðtalinu. En byrjum á því að spyrja hana út í bernskuna þegar við hittum hana á Garðskaga. Faðir hennar, Steinn Erlingsson, var með í för og hann blandar sér aðeins í viðtalið. Hann er uppalinn í Garðinum.