Landaði laxi fótbrotinn
Hjálmar Árnason er með fætur upp í loftið í fyllstu orðsins merkingu þessa dagana. Hann fótbrotnaði þegar hann var að landa fallegum laxi í Straumfjarðará fyrir nokkrum dögum. Hjálmar var að bakka í löndun eftir að hafa þreytt fiskinn, festi fótinn á milli steina og datt aftur á bak. Hann „skakklappaðist“ hins vegar nokkra daga eftir veiðina á annarri löppinni þar til að hann lét kíkja á hana á heilsugæslunni. Þá kom í ljós að hann var með brotna löpp og slitið liðband í kaupbæti. Þingmaðurinn er því í gifsi sem hann þarf að hafa næstu tvo mánuði að minnsta kosti. „Þetta er auðvitað hrikalegt. Verst þótti mér að missa af bestu veiðistöðunum sem ég átti eftir en ég fer í Pollíönnuleikinn og segi bara að þetta hefði getað verið verra.“Þingmaðurinn fékk aðstoð frá eiginkonunni Valgerði við löndun á laxinum. Fyrstu viðbrögð hennar voru þó að grípa stöngina. Það þótti meira atriði að koma fiskinum á land en að huga að sárum eiginmanni þegar þetta atvik átti sér stað. Eftir línuflækju og fjör náðist laxinn á land. Daginn eftir hélt þingmaðurinn áfram að veiða á öðru fæti og setti í tvo laxa en missti. Sagðist eftir ekki hafa athugað þá að fá aðstoð frá eiginkonunni.
Fleiri Suðurnesjamenn voru í laxastuði síðustu daga. Margfrægt Hafnagengi sem í eru 24 frændur og vinir veiddi hálft tonn af laxi í Langá í vikunni eða rétt tæpa 200 laxa. Meira um það í tímariti Víkurfrétta sem kemur út í næstu viku.
VF-ljósmynd/Páll Ketilsson: Hjálmar á „skrifstofunni“ heima í Keflavík í blíðunni í gærdag. Hann var að stýra símafundi í stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins þegar VF leit við í myndatöku. Hjálmar Jónsson, fyrrum þingmaður er í stjórninni og á meðan fundinum orti hann þessa vísu:
Heiðursmenn í hópnum finn
og húmorinn ekki þrotinn.
Nú er hlátur nývakinn
og nafni minn brotinn.
Fleiri Suðurnesjamenn voru í laxastuði síðustu daga. Margfrægt Hafnagengi sem í eru 24 frændur og vinir veiddi hálft tonn af laxi í Langá í vikunni eða rétt tæpa 200 laxa. Meira um það í tímariti Víkurfrétta sem kemur út í næstu viku.
VF-ljósmynd/Páll Ketilsson: Hjálmar á „skrifstofunni“ heima í Keflavík í blíðunni í gærdag. Hann var að stýra símafundi í stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins þegar VF leit við í myndatöku. Hjálmar Jónsson, fyrrum þingmaður er í stjórninni og á meðan fundinum orti hann þessa vísu:
Heiðursmenn í hópnum finn
og húmorinn ekki þrotinn.
Nú er hlátur nývakinn
og nafni minn brotinn.