Lagðir af stað í hringferðina
Nafnarnir Haraldur Hreggviðsson og Haraldur Helgason lögðu af stað fyrir stundu í hringferð um landið, annar hjólandi og hinn á bíl. Tilgangur ferðalagsins er að safna fé fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna en þeir nafnar eru félagar í Lionsklúbbi Njarðvíkur.
Haraldur Hreggviðsson stígur hjólið en nafni hans verður honum til halds og trausts á þjónustubifreið sem útbúin hefur verið til ferðarinnar með viðgerðarbúnaði fyrir hjólið og hressingu fyrir hjólakappann. Þeir félagar reikna með að fara að meðaltali 100 kílómetra á dag og því mun ferðin taka 10 – 13 daga eftir aðstæðum.
Þeir sem vilja leggja fjáröflun Lionsklúbbs Njarðvíkur lið geta gert það með því að leggja inn á reikning 1109-05-412828, á kennitölu 440269-6489.
Styrktarsíminn er 901 5010.
Mynd/elg – Þeir félagar luku undirbúningi ferðarinnar í gær og lögðu af stað í morgun. Hér eru þeir við þjónustubifreiðina sem merkt hefur verið í bak og fyrir með einkennismerkjum styrktaraðila.