Lætur verkin tala og draumana rætast
-„Gott að næra „sitt innra nörd“ af og til,“ segir alþingismaðurinn Silja Dögg sem er nú meistari í alþjóðaviðskiptum
„Tíminn bara hvarf. Allt í einu voru liðin 14 ár og ég enn ekki komin með meistaragráðuna. Að auki er ég í mjög ótryggu starfi. Þannig að þegar ég sá fjarnám auglýst hjá Bifröst vorið 2015, þá fannst mér rétti tíminn kominn. Börnin mín voru komin á legg, ég búin að ná ágætum tökum á nýja starfinu og tilbúin að setjast aftur á skólabekk,“ segir Njarðvíkingurinn Silja Dögg Gunnarsdóttir er þriðji þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, en nýverið útskrifaðist hún úr meistaranámi í alþjóðaviðskiptum. Hún segist alltaf hafa ætlað sér að fara í meistaranám að BA-námi loknu, sem hún kláraði árið 2001, en eftir að hún komst út á vinnumarkaðinn hafi alvara lífsins tekið við og námið þurft að sitja á hakanum.
Silja ákvað að fara í alþjóðaviðskipti og segir að sér hafi þótt fögin sem kennd voru á þeirri braut öll mjög áhugaverð. „Ég valdi alþjóðaviðskipti þar sem ég taldi að það nám gæfi mér aukna þekkingu á því sem ég er að fást við á Alþingi og aukna möguleika á vinnumarkaði. Ég valdi hagsögubraut á sínum tíma í sagnfræðináminu þannig að þessi tegund meistaranáms rímaði líka vel við þann grunn.“
Hún segir fjarnámið á Bifröst mjög sveigjanlegt, að það hafi hentað sér mjög vel og passað vel við taktinn í þingstöfunum. „Fjarnámið á Bifröst er sniðið að fólki sem er í fullri vinnu og fólk getur ráðið hversu hratt það fer. Margir samnemendur mínir voru t.d. í vaktavinnu og/eða bjuggu erlendis. Í fjarnámi getur þú hlustað á fyrirlestra hvar og hvenær sem er og unnið verkefnin þegar þér hentar. Við unnum mörg hópverkefni og það gerðum við að mestu í gegnum Google docs og Skype. Þannig að námsaðferðirnar sem fylgja fjarnáminu voru ekki síður gagnlegar og lærdómsríkar fyrir mig en námið sjálft. Öll heimildavinna er líka gerbreytt frá því sem áður var. Það er talsvert fljótlegra í dag að safna heimildum heldur en þegar ég var í sagnfræðinni og eyddi löngum stundum á Þjóðarbókhlöðunni að leita að bókum, ljóstrita og skrifa niður.“ Silja segir fólk fyrst og fremst verða að hafa mikinn vilja og metnað til að leggja sig fram, vera tilbúið til að fórna öllu á meðan náminu stendur eins og skemmtunum, sjónvarpsglápi, samveru með vinum og svo framvegis. Þá segir hún að það hjálpi líka til að fólk sé mjög skipulagt, sé fljótt að greina aðalatriði frá aukaatriðum í námsefninu og síðast en ekki síst, vera hraðlæst og eiga fjölskyldu sem styður það algjörlega.
Vinnudegi Silju lýsir hún sem mjög óreglubundnum og oft fullkomlega ófyrirsjáanlegum og því hafi fjarnámið hentað henni vel. „Ég hefði ekki geta verið í námi þar sem ég þyrfti alltaf að mæta á vissan stað á ákveðnum tíma. Það hefði verið útilokað. Hið sama gildir til dæmis um vaktavinnufólk eins og hjúkrunarfræðinga, en þeir voru þó nokkrir með mér í fjarnáminu.“
Hún segir að námið hafi gert sig hæfari í þeim störfum sem hún sinnir nú á Alþingi. „Ég tók til dæmis áfanga er snúa að stjórnun og þjónandi forystu, áfanga í lögum um stjórnsýslurétt og nokkra áfanga í fjármálum og alþjóðaviðskiptum sem hafa allir nýst mér afar vel bæði í fjárlaganefnd og í utanríkismálanefnd, sem hafa verið mínar aðalefndir það sem af er. Að auki tel ég mig hafa bætt stöðu mína á vinnumarkaði, en eins og allir vita þá er það liðin tíð að þingstörf séu álitin framtíðarstörf. Alþingismenn eru nú bara fólk og þurfa að fá tækifæri til að hugsa um eitthvað annað en vinnuna. Sumir hlaða batteríin með því að fara út að hlaupa, syngja í kór, mála myndir, fara á hestbak eða eitthvað annað. Ég kaus að fara aðra leið, loka mig inni í herbergi með fræðibækur og hlusta á fyrirlestra. Já, maður er skrýtið nörd en það er gott að næra „sitt innra nörd“ af og til.
Silja segist hafa lagt sig alla fram við að sinna skyldum sínum á Alþingi af kostgæfni. „Ég hef lagt fram fjölmörg mál, bæði frumvörp, þingsályktanir og fyrirspurnir, verið virk í umræðunni í þingsal og sinnt nefndarstörfum eftir bestu getu. Ég læt verkin tala og draumana rætast og vona að ég geti verið sem flestum hvatning.“