Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lætur skólann ganga fyrir
Þriðjudagur 1. janúar 2008 kl. 18:19

Lætur skólann ganga fyrir

-Móeiður er efnileg fyrirsæta-


Móeiður Sif Skúladóttir, 19 ára stúlka úr Reykjanesbæ, er nýkomin heim úr sannkallaðri ævintýraferð, en hún ferðaðist vítt og breitt um allt Kína í kynningum og keppni í Miss Bikini International. Þetta tækifæri fékk hún eftir að hafa lent í 3. sæti í Hawaiian Tropic keppninni hér á Íslandi fyrr á árinu.


„Þetta voru rúmar tvær vikur þar sem við ferðuðumst á milli borga eins og Taiwan, Hong Kong og Shanghai þar sem við komum fram og sýndum í verslunamiðstöðvum, íþróttahúsum og úti um allt og ferðuðumst á milli sýninga. Þetta var rosalega skemmtilegt en mjög öðruvísi. Mikil keyrsla og strangt prógram fram á kvöld með æfingum, sýningum og þess háttar. Svo var maturinn voða skrítinn og ekki mikið borðað og ekki mikið sofið, þannig að þetta var svolítið erfitt líka.“
Hún bætir því við að hún hafi kostað nokkru til í keppnina. Til dæmis hafi kjólar og baðföt kostað mikið, en hún fékk góðan stuðning frá ýmsum aðilum.

 

Móeiður var sú eina sem kom frá Íslandi, en 41 stúlka, alls staðar að úr heiminum tók þátt í keppninni. „Þetta endaði svo á stóru lokakvöldi í Shanghai 8. desember þar sem ég vann nú ekki neitt, en þetta var mjög gaman.“

Móeiður er búin að vera að reyna fyrir sér í fyrirsætubransanum undanfarin misseri og hefur m.a. verið í Hagkaupsbæklingum og í ýmsum aukaverkefnum hjá Icemodels þar sem hún er á skrá. En stefnir hún á frekari störf í þeim geira?
„Já alveg eins, það væri gaman. En skólinn gengur fyrir,“ segir Móeiður sem sló ekki slöku við í náminu þrátt fyrir ferðalagið og var á leiðinni í þrjú sjúkrapróf daginn eftir að viðtalið var tekið.

„Ég er í FS á Listabraut og félagsfræðibraut og stefni á að halda áfram á listabrautinni. Jafnvel fara í listaháskóla að loknu stúdentsprófi. Það er alla vegana áhugamál í augnablikinu en hver veit nema að það verði eitthvað meira í framtíðinni.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024