Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Læri mikið á að vinna með hæfileikafólki”
Fimmtudagur 2. febrúar 2006 kl. 10:33

„Læri mikið á að vinna með hæfileikafólki”

Breyting var á eignarhaldi Húðflúrstofunnar Húðflúr og götun fyrir skemmstu þegar Hlynur Ólafsson tók alfarið við rekstri stofunnar. Hann keypti fyrrum félaga sinn út úr rekstrinum og vinnur nú á staðnum ásamt húðflúraranum Kent Inge, sem hann kynntist við nám á Spáni.

„Hann er algjör snillingur,” segir Hlynur um Kent og segir að hann sé sérstaklega fær í svokallaðri Black and Grey flúrun. „Það hefur verið mjög vinsælt að undanförnu, en hann er líka mikill atvinnumaður tók í gegn hjá mér allt sem kallast hreinlæti á stofunni. Þó að ég væri með allt samkvæmt reglugerðum er Kent Inge miklu strangari en það.”

Hlynur segir alltaf mikið að gera hjá sér enda séu Íslendingar að opna sig meira fyrir fjölbreytni í húðflúrun. Hann er sjálfur nýbyrjaður að flúra, hefur verið mest í götunum hingað til, og segist læra mikið af Norðmanninum. „Ég er að læra mjög mikið af honum og ég stefni a að fá annan flúrara til mín í apríl þegar hann fer. Ég lít á það sem góða reynslu fyrir mig að fá til mín hæfileikaríkt fólk og verð bara betri á því að umgangast þá og kynnast þeirra handbrögðum.”

Íslendingar eru yfirleitt fljótfærir að eðlisfari og þá á líka oft við þegar fólk ákveður að fá sér húðflúr, en Hlynur segist yfirleitt ganga úr skugga um það að viðkomandi sé meðvitaður um hvað hann sé að fara út í. „Ég set líka ekki hvað sem er á fólk því margir eru ekkert að hugsa út í framtíðina eða hvort húðflúrin eigi eftir að eldast vel. Ég set til dæmis aldrei á handarbakið á fólki nema um sé að ræða mjög sérstakar týpur sem vita hvað þeir vilja.”

Hlynur hefur þó orðið við nokkrum skrítnum beiðnum bæði í flúrun og götunum og má þar á meðal nefna myndir af teiknimyndapersónum á einkennilegustu svæði líkamans. Annars eru allir velkomnir á húðflúrsstofuna til Hlyns og myndast oft eins konar kaffihúsastemmning á stofunni þar sem alls konar fólk kemur saman og rabbar um heima og geima.

Sjá fleiri myndir í nýjasta tölublaði VF sem er hægt að nálgast á forsíðu vf.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024