Mannlíf

Lærdómur framundan hjá yngsta bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar
Laugardagur 7. júlí 2018 kl. 15:29

Lærdómur framundan hjá yngsta bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar

Styrmir Gauti Fjeldsted er yngsti bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar frá stofnun bæjarfélagsins. Hann sat sinn fyrsta fund í nýrri bæjarstjórn nú á dögunum og Víkurfréttir tóku hann í létt spjall eftir fundinn.
 
Nú varstu að sitja þinn fyrsta fund í nýrri bæjarstjórn, hvernig fannst þér það?
Það var mjög fínt og mjög áhugavert. Það er í rauninni bara lærdómur framundan hjá mér að sjá hvernig þetta virkar og þetta var nú fyrsti fundurinn og ég því mikið bara að hlusta og heyra hvað hinir höfðu að segja, ég sagði nú ekki neitt. Annars lýst mér mjög vel á þetta og er spenntur fyrir komandi tímum.
 
Var eitthvað sem þú einsettir þér í vetur þegar þú ákvaðst að taka 3. sætið á listanum? Gerðirðu þér grein fyrir því að þú gætir komist inn í bæjarstjórn?
Mér var kynnt þetta með því markmiði að ég væri á leiðinni inn í bæjarstjórn, það var aldrei talað um annað en að ég væri inni þannig ég gerði mér grein fyrir því að það væri mikill möguleiki á því að ég kæmist inn.
 
Er eitthvað ákveðið málefni sem þú vilt fylgja eftir?
Ef það er eitthvað ákveðið mál sem ég vildi sérstaklega koma í gegn þá eru það aðallega aðstöðumál fyrir íþróttaiðkun hér í bæ. Það er ábótavant á mörgum stöðum og það væri skemmtilegt að ná því í gegn á þessu kjörtímabili.
 
Hvaða tilfinningu hefur þú fyrir áhuga ungs fólks á bæjarfélaginu og fyrir bæjarmálum almennt? Þú hefur eflaust fundið eitthvað fyrir því í þessari kosningabaráttu?
Ég held að það hafi flestir skoðun á ýmsum málum sem þau vilja að komi í gegn. Margir eru hinsvegar ekki nógu duglegir að framfylgja því sem þau hafa skoðun á og mæta því ekki að kjósa. Ég talaði við fullt af ungu fólki sem hafði mikla skoðun á þessu og spurðu út í ýmis mál áður en þau tóku ákvörðun um hvað þau myndu að kjósa. Ég held að það megi klárlega bæta og efla ungt fólk í að hafa áhuga og taka meiri þátt og það er mikill möguleiki á því.
 
Hvernig voru viðbrögð fólks í kringum þig eftir að því var ljóstrað að þú varst kominn inn í bæjarstjórn?
Þau voru mjög góð, ég fékk mikið hrós og ég held ég hafi aldrei fengið jafn margar vinabeiðnir á Facebook. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegur tími og margir búnir að óska mér velgengni og ég er þakklátur fyrir það. 
 
Varstu búin að setja þig inn í einhver mál og sjá hvernig þetta kerfi gengur fyrir sig fyrir fyrsta fundinn?
Það var mjög gott að í gær fengum við öllu kynningu á því hvernig þetta myndi ganga fyrir sig. Ég mætti líka á síðasta bæjarstjórnarfund hjá fráfallandi bæjarstjórn þannig að ég gerði mér eitthvað grein fyrir því hvernig þetta færi fram. Ég á hinsvegar klárlega eftir að setja mig inn í fleiri mál og kynna mér betur hvað er framundan. Þannig að áður en ég fer að geta tjáð mig mikið þarf ég kannski að kynna mér þetta aðeins betur, ég skal alveg viðurkenna það.
 
Að lokum, hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér sem draumasveitarfélag inn í framtíðina?
Þetta er mjög stór spurning. Ég er ekki með neina sérstaka draumsýn en ég vil að Reykjanesbær verði grænt samfélag. Mér finnst mikilvægt að Reykjanesbær taki skref frá því að vera mengandi stóriðja í bakgarðinum og fari frekar í það að vera grænna bæði varðandi sorpmál, orku, bílanotkun og fleira. Einnig langar mig að efla fjölmenninguna; að fólki líði vel, komi betur inn í samfélagið og taki þátt. Þá held ég að okkur séu allir vegir færir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024