Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Lærdómur að leika sér í náttúrunni
Þórunn Alda með bóluþang í Bótinni
Sunnudagur 5. nóvember 2017 kl. 08:00

Lærdómur að leika sér í náttúrunni

- Þórunn Alda og Karítas þróa kennsluefni fyrir grunnskóla

„Það skiptir máli að nemendum finnist námsefnið skemmtilegt. Þau eru með mér í þessari vegferð og láta mig vita hvort ég er á réttri leið eða ekki, þau eru gagnrýnin og það er flott. Þau eru nefnilega tilbúin að segja frá því hvað virki og hvað ekki. Nám þarf að vera skemmtilegt og þér þarf að finnast gaman að fara út,“ segir Þórunn Alda Gylfadóttir, en hún kennir náttúrufræði við Grunnskóla Grindavíkur og hefur starfað við kennslu síðastliðin fimm ár.

Í vor sótti Þórunn um styrk í Sprotasjóð fyrir verkefnið „Þróun kennsluhátta í náttúrufræðigreinum við Grunnskóla Grindavíkur.“ Þórunn sótti um styrkinn ásamt Karítas Nínu Viðarsdóttur sem kennir einnig í skólanum og vinna þær að verkefninu þessa dagana. Námsefnið sem þær eru að þróa snýr að nærumhverfinu eða náttúru í kringum Grindavíkurbæ. Þegar þeirri vinnu er lokið munu þær þróa námsefnið að Reykjanesinu og fá gott fólk með sér í samstarf, meðal annars frá Reykjanes Geopark, sjávarútvegnum og fleiri aðilum sem tengjast námsefninu að einhverjum hætti.

Public deli
Public deli

Nýta nærumhverfið
Markmið verkefnisins er að skoða nærumhverfið og leita ekki langt yfir skammt. „Við Karítas vinnum þetta verkefni saman og við ákváðum að horfa alltaf heim. Við erum búnar að skoða mjög margar bækur og núna er ég að nota bók með 8. bekk sem heitir „Maður og náttúra“, ég vinn þróunarverkefnið út frá þeirri bók í samvinnu með 8. bekk og þessi bók býður upp á að ég þrói verkefnið. Ég breyti öllum verkefnunum þannig að þau eru í nærumhverfi okkar og við getum þá notað umhverfið hér í kringum Grindavík.“

Bótin frábær kennslustofa
Í Grindavík er góð fjara sem heitir Bót og eru Grindvíkingar duglegir að fara þangað og njóta náttúrunnar, en fyrsti kafli verkefnis þeirra Þórunnar og Karítasar er Bót. „Mér datt Bótin strax í hug því þar er frábært lífríki til að skoða, gönguferðin þangað tekur ekki langan tíma og er góð hressing fyrir alla. Svæðið er skemmtilegt og er svolítið lokað sem hentar vel til kennslu. Okkur vantar samt útistofu þangað til þess að vinna úr verkefnunum en það kemur vonandi í framtíðinni.“

Skoða atferli fugla
Fyrsta verkefnið í þróunarverkefninu er tilbúið en það er einmitt Bótin og verkefni um lífríkið þar. „Verkefnið um Bótina er í þremur hlutum, við skoðum fugla og spáum í atferli þeirra og hvað þeir gera. Þar sem við komumst ekki nálægt þeim erum við með sjónauka og getum séð hvað þeir gera, hvort þeir sig, borði, syndi eða fljúgi. Við reynum að komast að því hvað þeir geri í fjörunni. Fuglaverkefnið er þróað út frá auðlindaskýrslu þar sem kemur fram hvaða staðar og farfuglar séu hér í Grindavík.“

Mikið plast í fjörunni kom á óvart
Fjaran í Grindavík er full af þara og Þórunn hefur þróað verkefni sem nemendur eiga að vinna um hann. „Í þaraverkefninu hef ég fundið út hvaða þarategundir eru í fjörunni, þar skoða nemendur allar tegundirnar og spá svolítið í þeim, meðal annars hvort það megi borða hann. Eitt verkefnið er um lífríki krabba í fjörunni, krabbategundir og kuðunga. Svo erum við líka að skoða ruslið í fjörunni, hvaðan það komi o.s.frv. Nemendur bjuggust einmitt við því að í fjörunni væru bara bobbingar, net og fleira sjávartengt og það kom þeim töluvert á óvart hversu margar plastflöskur voru í fjörunni. Þau voru svolítið að spá í því hvaðan þær komi.“

Okkar eigin Silfra
Nemendum finnst gaman að fara út og skoða náttúruna að sögn Þórunnar og Grindvíkingar eru líka svo heppnir að vera með sína eigin Silfru. „Við Grindvíkingar búum svo vel að því að hafa stóra gjá hér rétt fyrir utan sem heitir Silfra. Nemendur mínir voru alveg harðir á því að hún væri á Þingvöllum en eftir að ég sýndi þeim okkar Silfru á korti þá fannst þeim það alveg stórmerkilegt. Þangað fórum við að veiða hornsíli og brunnklukkur og þeim fannst það mjög gaman. Þau voru með leðju upp að olnboga og hnjám og gleðin var mikil. Við erum líka með útikennslustofu sem ég hef farið með nemendur og ég finn að þeim finnst gaman að fara þangað. Þar skoðum við lífríkið og gróðurinn í kring, finnum orma, flugur og allt það lífríki sem hægt er að skoða að vori og hausti. Þessi útikennslustofa býður upp á mikla möguleika í kennslu en útikennsla er að verða öflugri í skólastarfinu.“

Nemendur segja frá ef þeim finnst ekki gaman
„Það er lærdómur að leika sér úti í náttúrunni og mikilvægt að börn fái að upplifa náttúruna og leika sér í henni því hún er svo spennandi. Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni, sérstaklega því við þurfum ekki að leita langt en ég verð að viðurkenna það að ég var pínu hikandi þegar ég ákvað þetta fyrst þar sem að mér fannst ég kannski ekki hafa næga þekkingu fyrir þetta. Svo ákvað ég með sjálfri mér að ég væri alveg nógu góð í þetta og sló til. Það er alltaf hægt að biðja um aðstoð ef maður er í vafa um eitthvað. Við Karítas erum svo einstaklega heppnar að hafa nemendur sem hjálpa okkur í verkefninu. 8. bekkur er tilraunabekkur í verkefninu og þau eru ótrúlega flott, þau segja ef þeim líkar ekki verkefnin og líka ef þeim líkar þau sem er svo frábært. Það skiptir máli að nemendum finnist námsefnið skemmtilegt og þau eru með mér og okkur í þessari vegferð og láta  vita hvort við séum á réttri leið eða ekki, þau eru gagnrýnin og það er flott. Nám þarf að vera skemmtilegt og þér þarf að finnast það gaman að fara út.“

Mikilvægt að halda í söguna
Góðir hlutir gerast hægt og er verkefnið á fimm ára plani þar sem að Reykjanesið og nærumhverfi er gríðarlega stórt svæði. „Núna er ég að gera námsefni um Grindavík, við byrjum hér nálægt okkur og síðan færi ég radíusinn alltaf lengra og lengra. Verkefnið í Grindavík er þrískipt, Bótin, fiskvinnsla og Eldvörpin. Við erum til dæmis svo heppin hér í Grindavík að vera með mikið af fornminjum, menningarminjum og náttúruminjum. Við höfum svo mikið og við viljum nýta það. Hópsneshringurinn er gott dæmi, þar er mikið um örnefni og gott að þau viti að þau skipta miklu máli enn þann dag í dag, það er svo mikilvægt að halda í söguna.“