Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lærði ótrúlega mikið á að vinna á blaðinu
Föstudagur 31. desember 2010 kl. 11:59

Lærði ótrúlega mikið á að vinna á blaðinu

Hulda G. Geirsdóttir fjölmiðlafræðingur og framkvæmdastjóri Félags hrossabænda var blaðamaður hjá Víkurfréttum 1992-1993.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta nýliðna ár er vissulega eftirminnilegt en kannski ekki að öllu leyti fyrir jákvæðar sakir. Náttúran minnti hressilega á sig með eldgosinu í Eyjafjallajökli og í vinnunni hjá mér fór allt á hvolf vegna smitandi hósta í hrossum sem lamaði atvinnugreinina hrossarækt og tamningar um nokkurra mánaða skeið. Sjálfu Landsmóti hestamanna var frestað og útflutningur stöðvaður í fjóra mánuði. Tjónið er gríðarlegt en hestamenn eru harðir af sér og stefna á öflugt ár 2011 með landsmóti, heimsleikum og fleiru skemmtilegu. Vesenið í kringjum Landeyjahöfn kemur upp í hugann líka, maður hefur alla vega ekki enn komist í kaffi til ömmu og afa í Eyjum þá leiðina. Sveitastjórnarkosningarnar voru sögulegar sl. vor, ekki síst í borginni og svo var auðvitað bara hlægilegt að fylgjast með því hvernig ýmsir þingmenn „tóku sér leyfi“ frá störfum í kjölfar rannsóknarskýrslunnar og sneru svo aftur stuttu síðar eins og ekkert hefði í skorist á meðan ráðherrar erlendis segja af sér af því að snjómokstur í landinu gengur illa!

Á persónulegum nótum standa upp úr góðar stundir með fjölskyldunni og svo óvæntur sigur í sumar þegar hryssan Þrenna frá Strandarhjáleigu, sem ég á með Elvari Þormarssyni vini mínum, varð Íslandsmeistari í fjórgangi undir hans stjórn. Einnig fæddust okkur fjölskyldunni fjögur flott folöld í sumar og ég fór í eftirminnilegar ferðir til útlanda að dæma á hestaíþróttamótum, m.a. á Norðurlandamótið í Finnlandi sem var mjög skemmtilegt. Í haust fluttum við hesthúsið okkar á milli hverfa og höfum verið að byggja við það og stefnum á að taka nýtt hesthús í notkun á næstu dögum sem er mjög spennandi.


Ég hef haft það fyrir reglu að velta mér ekki upp úr kreppu-fréttum og ætla ekki að gera það hér heldur, horfi bara fram á veginn og held áfram að lifa lífinu. Það er miklu skemmtilegra!
Ef ég rifja upp tímann sem ég vann hjá Víkurfréttum þá er í raun eftirminnilegast hvað ég lærði ótrúlega mikið á því að vinna á svona héraðsfréttamiðli. Þar varð maður að ganga í öll störf, fjalla um alls kyns mál og framkalla allar myndir sjálfur með gamla laginu inni í myrkrakompu. Þetta var skemmtilegur tími með góðu samstarfsfólki og reynsla sem ég bý enn að. Fréttalega séð man ég mest eftir því hvað það var mikið um að vera í kringum körfuna, frábær aðsókn á leiki, gríðarleg barátta á milli Keflavíkur og Njarðvíkur og almenn gleði og velgengni í kringum boltann. Virkilega skemmtilegur tími og að sjálfsögðu urðu Keflvíkingar meistarar bæði ´92 og ´93 ef ég man rétt ;)“