Lærði að standa á eigin fótum

- Karen Lind lærði læknisfræði í Ungverjalandi

Karen Lind Óladóttir er fæddur og uppalinn Grindvíkingur, en fyrir sex árum síðan ákvað hún að láta drauminn um það að verða læknir rætast. Hún skellti sér í inntökupróf í Ungverjandi, komst inn í námið og lét slag standa. Í dag er Karen útskrifuð úr skólanum og er að hefja kandidatsnámið sitt hér á Íslandi.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að fara til Ungverjalands og læra læknisfræði?
Mig langaði alltaf að læra læknisfræði en fannst inntökuprófið í Háskóla Íslands vera svo yfirþyrmandi. Að þurfa að rifja allt upp úr framhaldsskóla hentaði mér eki. Ég ákvað að prufa inntökuptófið fyrir Ungverjaland þar sem var lögð áhersla á líffræði, efnafræði og eðlisfræði. Það gekk svona glimrandi vel þannig að ég ákvað að skella mér bara til Ungverjalands.

Var námið meira krefjandi en þú gerðir ráð fyrir?
Já og nei. Ég vissi að námið væri krefjandi en þetta var líka krefjandi á annan hátt en ég bjóst við. Þar sem flest prófin eru munnleg þá var það ekki bara námsefnið sem maður var að berjast við heldur gat maður líka lent á prófdómurum sem áttu slæman dag og gerðu manni lífið leitt í prófinu. Maður var oft mikið að reyna að fókusa á það að láta þessa prófdómara ekki taka mann á taugum.

Hvað fannst fjölskyldunni þinni um það að þú færir ein til Ungverjalands?
Þau tóku því bara vel enda langt frá því að vera versta hugmynd sem ég hef fengið. Mamma og pabbi fylgdu mér út, hjálpuðu mér að finna íbúð og komu svo reglulega í heimsókn á þessu sex ára tímabili sem ég var í náminu.

Hvað lærðir þú af þessari reynslu, fyrir utan læknanámið?
Ég lærði að standa á eigin fótum og treysta á sjálfa mig. Það var mikið stökk að fara frá því að búa hjá mömmu og pabba yfir í að flytja í annað land, tala ekki tungumálið og fara að búa ein ásamt því að vera í krefjandi námi.

Hvað fannst þér erfiðast af þessu öllu saman?
Það var erfiðast að yfirgefa fjölskyldu og vini eftir frí á Íslandi. Einnig var afar leiðinlegt að missa af ýmsum viðburðum, afmælisveislum, brúðkaupum, útskriftarveislum og svo framvegis.

Nú ert þú á leiðinni aftur heim til Íslands, hvað tekur við?
Nú ætla ég að byrja kandidatsnámið. Byrja á því að taka fjóra mánuði á heilsugæslu HSS og flyt svo til Akureyrar þar sem ég klára kandidatsárið á SAk.

Ertu með einhverja skemmtilega sögu handa okkur frá Ungverjalandi?
Þær eru nú margar „had to be there“ sögur en það er ein saga sem við rifjum oft upp og hlægjum af. en hún er þannig að einu sinni ætluðum við að kíkja ú í „einn drykk“ á mánudagskvöldi sem eru svakaleg djammkvöld í Ungverjalandi. Áður en við vissum af var klukkan orðin sjö á þriðjudagsmorgni og vorum við vinkonurnar komnar heim til bekkjarbróður okkar frá Saudi- Arabíu. Voð vorum dressaðar upp í arabísk karlmannsföt og okkur kenndir arabískir þjóðdansar. Eftir þetta hættum við að þykjast bara ætla út í einn drykk.