Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Læra svo margt sem þeim er ekki kennt
Sigríður Bílddal.
Sunnudagur 26. janúar 2014 kl. 09:00

Læra svo margt sem þeim er ekki kennt

Börn eru seig en þurfa að hlustað sé á þau.

Náms- og starfsráðgjafar sinna afar mikilvægu starfi í samfélagi okkar, meðal annars innan skólakerfisins. Með því að ræða við þá gefast tækifæri til að skoða og meta eigin stöðu, til dæmis áhuga og hæfni, átta sig á hvaða möguleikar eru í boði og gera áætlun um hvert skal stefna. Að mati náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum á Suðurnesjum hefur áhersla breyst á undanförnum áratug úr því að vera það sem lögverndað starfsheiti þeirra gefur til kynna yfir í viðtöl vegna líðan skólabarna. Þessi grein er hluti af fréttaskýringu sem birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta og tekin verður fyrir næstu vikur.

Námsráðgjöf í Holtaskóla

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigríður Bílddal er náms- og starfsráðgjafi í Holtaskóla. Hún segir að börn séu ótrúlega seig miðað við oft erfiðar aðstæður. Þau geri bara það sem þau geti hverju sinni. „Þau hafa aðgang að svo mörgum innan skólans til að ræða sín mál. Foreldrar hafa einnig samband ef eitthvað er. Misjafnt er þó á milli krakka hvað þeir eru tilbúnir að ræða. Stundum þarf að ganga eftir því án þess að þau átti sig á tengingunni.“ Sigríður segir að áherslan sé á að þau tali við einhvern. Stundum komi beiðnir í gegnum foreldra, umsjónarkennara eða aðra starfsmenn skólans.

Stelpur almennt opnari
„Yngri börnin eru dálítið opnari en sum feimin. Stelpur eru almennt opnari og duglegri að tala um tilfinningar. Strákar eru aftur á móti oft hræddir við hvern annan eða hræddir um viðbrögð hinna,“ segir Sigríður. Félagar barnanna komi líka og láta vita um leið ef eitthvað er að hjá vini sínum. Sumir komi í hópum og þá oftast stelpur. Stundum koma þau með viðkomandi með sér og í öllum tilfellum komi stelpur með stráka með sér. Einhverjir segjast ekki hafa neinn til að tala við og um er að ræða stráka í öllum þeim tilfellum.

Foreldrar eiga of annríkt
Sigríður segir dálítið um að börn leiti til hennar vegna samskiptavanda. Þau ímyndi sér að þessi eða hinn hugsi svona eða hinsegin. „Oft kunna þau ekki að leysa úr málum. Fá allskonar upplýsingar að heiman því foreldrar vilja hjálpa til og eru duglegir við það. Börnin eru bara oft klaufar í þessu og vantar réttu verkfærin. En þau eru dugleg að ráðleggja hvert öðru.“ Börn eiga lítil samskipti með fullorðnu fólki almennt. Það vanti að setjast niður og tala við börnin. Foreldrar geri marga góða hluti en sinni svo miklu og eigi annríkt. Börnin þurfi að hlustað sé á þau og spjallað við þau í 20 - 30 mínútur á dag. Það skipti svo miklu máli.

Erfitt þegar nemandi er að bugast
Sigríður segir ungt fólk opnara í dag en það var fyrir 10 árum. En því fylgi kostir og gallar. „Þau kunna ekki mörk og halda að það sé í lagi að gera eitthvað eða segja og segja svo bara „djók“. Þau átta sig til dæmis oft ekki á því hvað er einelti og hvað ekki. En ég hef gaman að þeim sem hafa frumkvæði að einhverju eins og hvernig þau opna sig.“ Erfiðustu málin sem koma á borð Sigríðar eru t.d. prófkvíðamál. Sigríður notar mælitæki sem metur hvort þörf sé á meðferð hjá sálfræðingi. Þá þarf stundum meðferð hjá sálfræðingi sem notar mælitæki sem greinir frávik. Einnig hafa kvíðaköst komið upp og slík mál fara oft einnig til skólasálfræðingsins. „Krakkar hafa talað um sjálfsvíg og stundum er það í gríni en það er alltaf kannað af fyllstu alvöru. Á hverju ári kemur til mín nemandi sem er að bugast og mér finnst það alltaf jafn ótrúlegt og erfitt.“

Mannorð skiptir máli
Mannorð er meðal hugtaka sem Sigríður hefur rætt um við nemendur á námskeiðum sem hún heldur. „Mannorð fylgir okkur mjög lengi og jafnvel alla tíð. Ef einhver var leiðinlegur við alla í skóla þá gleymist það ekki og fylgir jafnvel viðkomandi í framhaldsskóla. Stundum þarf að flytja burt til að byggja upp nýtt mannorð,“ segir Sigríður og bætir við að til dæmis ef einhver sem tilheyrði hóp komist ekki aftur inn vegna mannorðsins sem hann er búinn að skapa sér. „Það er eiginlega það versta og erfitt að horfa upp á. Sumir fá bara ekkert að vera með. Fá ekki tækifæri aftur. Getur verið erfitt að koma viðkomandi í skilning um hvað hann þarf að gera til að komast aftur inn. Hvernig skaparðu þér mannorð og á hvaða hátt hafa aðrir áhrif á mannorð?

Ákveða 11 ára hvað eru kvenna- og karlastörf
„Börn í dag læra svo margt sem þeim er ekki kennt. Eitthvað sem þau tileinka sér. Við vitum ekki hvað börn læra sem fá að vera í tölvu óáreitt. Þar er orðaval og ýmislegt annað sem þau tileinka sér,“ segir Sigríður. Tölvunotkun geti nýst þeim vel ef þeim er leiðbeint og fylgst með. T.a.m. læri unglingar í 10. bekk í Holtaskóla að gera ferilskrá á tölvutæki formi sem þau geta notað þegar þau fara á vinnumarkaðinn síðar. Þá öðlist þau grunnþekkingu í að búa til skrána og aðferðir við að leita að vinnu. Í Holtaskóla er náms- og starfsfræðsla með nemendum í 7.-10. bekk. „Þau skoða styrkleika sína og gildismat. Náms- og starfsfræðsla er mikilvæg. Samkvæmt ýmsum rannsóknum eru börn um ellefu ára aldur í raun búin að ákveða hvað eru kvenna- og karlastörf og þá er erfiðara að fá nemendur til að skoða störf út frá áhuga,“ segir Sigríður.

VF/Olga Björt