Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Læra strax að kynnast landinu og menningu okkar og kynna menningu sína fyrir hvort öðru“
Miðvikudagur 12. mars 2003 kl. 13:33

„Læra strax að kynnast landinu og menningu okkar og kynna menningu sína fyrir hvort öðru“


-segir Vala Viktorsdóttir nýbúakennari við Holtaskóla í viðtali við Víkurfréttir.

Í Holtaskóla í Keflavík starfar Vala Viktorsdóttir við nýbúakennslu, en hún kennir nemendum sem hafa flust til Íslands. Flestir nemenda hennar tala litla sem enga íslensku þegar þau setjast á skólabekk og segir Vala að það sé mjög gaman að kenna hópnum, enda krakkarnir mjög opnir og jákvæðir. Á göngum Holtaskóla má heyra 8 mismunandi tungumál, auk íslenskunnar. Vala segir að íslensku krakkarnir mættu vera forvitnari um að kynna sér menningu krakkana sem flust hafa til Íslands.Hvað felst í nýbúakennslu?
Fyrst og fremst skemmtilegt nám. Þetta eru nemendur sem hafa enga kunnáttu í íslensku þegar þau innritast í skólann og geta fæst tjáð sig á öðrum tungumálum sem við skiljum.
Við þurfum að nálgast íslenskuna á ólíkan hátt heldur en gengur og gerist í venjulegu tungumálanámi eins og við erum vön í grunnskóla. Við getum ekki stuðst nema að mjög takmörkuðu leiti við orðabækur sem duga engan veginn og eitt er víst að ég kann ekki öll heimsins tungumál og því er kennslan afar skemmtileg og líklegast eru kennslustundirnar líkastar æfingum í leikhúsi! Þau læra strax að kynnast landinu og menningu okkar og kynna menningu sína fyrir hvort öðru. Við leitumst eftir því að vera opin og jákvæð og láta ekkert hindra okkur í að fóta okkur í nýju landi, landi sem er gjörólíkt því sem þau hafa alist upp við.
Einnig fá íslenskir krakkar sem hafa búið erlendis um langan tíma kennslu og hressa uppá íslenskukunnáttuna. Íslenskukennslan nær reyndar yfir allar námsgreinar og við bestu getu nálgumst þann orðaforða sem við þurfum á að halda í skólanum í því námsefni sem þau eru að fást við.

Hvað eru mörg tungumál töluð í Holtaskóla?
Á göngum Holtaskóla getur þú heyrt 5 framandi tungumál.
Hér eru nemendur frá Tælandi, Júgóslavíu, Rússlandi, Filippseyjum, Póllandi og Ameríku. Að viðbættri íslenskunni, enskunni og dönskunni eru um 8 mismunandi tungumál töluð í skólanum.

Finnst þér gaman að vinna með krökkunum?
Já, þetta eru frábærir krakkar og gaman að fá að kynnast öllum þessum krökkum. Það er ekki bara að ég sé að kenna þeim heldur eru þau líka að kenna mér. Það gengur nú svona upp og ofan hjá mér að bera fram tungumálin þeirra og þá er oft mikið hlegið og við upplifum það öll að það getur verið erfitt að læra nýtt tungumál en umfram allt skemmtilegt.

Eru þessir krakkar reynslumeiri en krakkar sem fæddir eru á Íslandi?
Þeir eru kannski ekki reynslumeiri heldur hafa ólíka reynslu að baki og þá er það fyrst og fremst vegna ólíkra menningarheima sem við komum frá.
Það eru ótrúlega skemmtilegar kennslustundir þegar þau eru að skiptast á sögum frá sínu heimalandi og við getum skemmt okkur yfir því hvernig ólíkir siðir, menning og málfræði tilheyra hverju landi fyrir sig. Þannig lærum við að deila okkar reynslu og jafnframt að vera opin fyrir því sem tekur við í nýju landi og tileinka okkar það.

Hvernig hefur þeim verið tekið í skólanum?
Almennt vel alveg eins og gengur og gerist þegar venjulegir Íslendingar flytja sig um skóla. Íslensku krakkarnir mættu þó vera miklu forvitnari og kynna sér menningu þeirra landa sem krakkarnir koma frá og vera ófeimin að kynnast krökkum frá öðrum löndum sem þau þekkja svo alltof lítið til ef þá nokkuð. Krökkunum finnst gaman að segja frá og bera sig saman við ólíkar aðstæður.

Íslenskt veðurfar?
Í fyrra bjuggu þau sig undir snjóharðan vetur og fimbulkulda sem reyndar kom aldrei að áliti sannra víkinga! Mörgum fannst þó nóg um og áttu mjög erfitt með að aðlagast veðurfarinu en voru fegin því að hann var þó ekki kaldari. Sum þeirra eru þó vön miklum kulda yfir vetrartímann en á móti finnst þeim sumarið okkar ekki neitt sérstaklega hlýtt. Erum við ekki einmitt búin að komast að því að Ísland býður bara upp á tvær árstíðir, vor og haust?

Ræða krakkarnir um þau lönd sem þau eru ættuð frá við aðra krakka?
Um leið og þau hafa náð nokkru öryggi í tungumálinu þá eru þau fúsari við að fræða okkur um sín heimkynni og ég legg ríka áherslu á það að þau glati ekki heldur viðhaldi sinni menningu, trú og öðrum siðum sem þau hafa verið alin upp við en bæti síðan við nýrri menningu og siðum við sína fyrri.

VF-ljósmynd: Hressir krakkar með Völu kennara í Holtaskóla.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024